Þor­geir Hjalta­son fædd­ist Reykja­vík 18. des­em­ber 1953. Hann lést 10. mars 2024. For­eldr­ar hans voru hjón­in Jó­hanna Þor­geirs­dótt­ir kenn­ari, f. 1930, d. 2006, og Hjalti Jónas­son skóla­stjóri, f. 1927, d. 2015.

Þor­geir út­skrifaðist frá Vél­skóla Íslands árið 1977 og starfaði sem vélstjóri mest af sínum starfsferli.

Við Þorgeir kynntumst þegar við störfuðum saman á Arnarfelli, einu af skipum Samskipa en skipið var í siglingum ,,á ströndinni“ eins og það var kallað, þ.e.a.s. skipið hafði það hlutverk að flytja vörugáma til og frá Vestfjarða- og Norðurlandshafna.

Skemmst er frá því að segja að kynni okkar Þorgeirs voru góð og samstarfið gekk vel að mínu mati.

Ég áttaði mig fljótt á því, að Þorgeir hafði afar gaman af að lesa og lesefnið var fjölbreytt og maðurinn fróður eftir því.

Lestraráráttuna áttum við því sameiginlega, nema að Þorgeir mundi það sem hann las og var jafnvígur á dönsku, ensku og íslensku.

Hann sagði mér síðan hvernig hann færi að og varð það til þess að ég varð brattari við enskulesturinn eftir það!

Þorgeirs minnist ég að góðu einu og samstarf okkar gekk vel að mínu mati en eftir að ég fór á önnur skip og að lokum í land, slitnuðu þræðir eins og oft vill verða en lifnuðu seinna í tölvusamskiptum á netinu.

Ég hafði lengi gælt við að renna til hans og bjóða honum heim til mín til að sýna honum hvað við værum að bjástra en nú er það orðið of seint, sem kennir manni að það á ekki að geyma til morguns það sem hægt er að gera í dag.

Ég votta systkinum og öðrum ættingjum innilegrar samúðar og blessuð sé minning Þorgeirs.

Færðu inn athugasemd