,,Sameining“ ólíkra skóla

Skipstjórnar og vélfræðimenntun er á hrakhólum og svo sem sjá má, hrakar menntun skipstjórnarmanna af þeim ástæðum.

Sé það svo, má gera ráð fyrir að það sama sé upp á teningnum hvað varðar menntun vélstjóra, því ekki er síður að þeirri menntun sótt, af ráðamönnum þjóðarinnar.

Að svo sé komið vegna húsnæðisskorts fyrir starfsemi dómstóla, er sérkennilegt svo ekki sé meira sagt.

Hver hefði getað trúað því að eyþjóðin, sem á sinum tíma barðist fyrir og kom upp menntastofnunum fyrir þessar starfsgreinar, að hún yrði með tímanum svo upptekin af dómstörfum, að úthýsa þyrfti menntun þeirra, sem starfa við undirstöðuatvinnuveg hennar.

Er það atvinnuvegurinn sem er orðinn undirstaða alls, að dæma þá sem brotið hafa af sér í samfélaginu?

Vissulega er áríðandi að halda uppi lögum og reglu en þarf til þess að það geti orðið, að koma menntun þeirra sem að námi loknu stjórna skipum þjóðarinnar á hrakhóla?

Undirritaður fór og skoðaði Vélskólann á síðasta Skrúfudegi og sá margt nýstárlegt og augljóst er að menn hafa lagt sig fram um að fylgjast með tímanum og að innleiða nýja tækni.

Hvert ætlunin er að flytja alla þá starfsemi sem þessu fylgir er ekki gott að átta sig á, nema að ,,vélsmíði“ var manni sagt, að búið væri að útvista til þarnæsta sveitarfélags.

Þykir það hagstætt að nemendur þurfi að fara um langan veg til að fá þjálfun í verklega hluta vélfræðinámsins var spurt og það stóð ekki á svarinu, sem líkt og við mátti búast var skýrt: NEI!

Ávinningurinn er enginn en skaðinn talsverður.

Það tekur sinn tíma að komast frá Reykjavík til Hafnarfjarðar og undirritaður man vel að þegar hann stundaði nám í Vélskólanum, þá tók það tíma og kostaði fyrirhöfn, að komast í Breiðholt, til að vera þar í kvöldskóla til að flýta fyrir námslokum, sem var frjálst val og valið af nemandanum sjálfum.

Það var þó gert og gafst vel, en að fara til Hafnarfjarðar hefði aldrei gengið, vegna tímans sem í það hefði farið, að ógleymdum kostnaðinum sem fylgir slíkum ferðalögum.

Færðu inn athugasemd