Um upprunamerkingar á landbúnaðarafurðum.
Í síðasta Bændablaði, því sem kom út miðvikudaginn 24. apríl 2024, var talsvert fjallað um svínakjötsframleiðslu og merkingar vörunnar á kjötmarkaðnum.
Á forsíðu blaðsins var eftirfarandi fyrirsögn:

Þar segir: ,,Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngrís í Laxárdal þrátt fyrir að framleiðandinn sé eini fasti svínainnleggjandi hjá fyrirtækinu„
Síðan segir og er haft eftir svínabónda í Laxárdal, „Ég hef boðið þeim að taka upp merkið okkar, Korngrís frá Laxárdal, en þeir sýna því lítinn áhuga, því miður. Þar sem við erum einu föstu innleggjendur svína í SS ætti að vera hægt að aðgreina þetta kjöt.“

Haft er eftir bóndanum, þegar rætt er um upprunamerkingar á afurðum bænda:
,,SS setja fyrir sig flækjustig í vinnslunni. „Ég hef boðið þeim að taka upp merkið okkar, Korngrís frá Laxárdal, en þeir sýna því lítinn áhuga, því miður. Þar sem við erum einu föstu innleggjendur svína í SS ætti að vera hægt að aðgreina þetta kjöt.“„

Fram kemur í viðtali við forstjóra SS að hann telji að búið í Laxárdal sé til fyrirmyndar en málið sé það, að SS kaupi einnig svínakjöt frá öðrum framleiðenda og forstjórinn segir, að ef merkja ætti kjötið framleiðenda, þá myndi það flækja málið verulega.
Forstjórinn segir orðrétt skv. Bændablaðinu:
,,Það flækir hlutina verulega ef halda á unnu svínakjöti frá tveimur svínabúum aðskildu í framleiðsluferlunum og vera með tvær útgáfur af umbúðamerkingum eftir því hvaða kjöt er í hverri lotu.“
Bóndinn gefur lítið fyrir þetta og segir:
,,Það er skylda að lotumerkja slátrunina, sem er alltaf aðskilin frá öðrum framleiðendum. Fyrirtækið gæti alveg merkt ákveðnar vörur, svo sem steikur og hryggi.“
Fram kemur einnig að bóndinn, sem er í stjórn Bændasamtakanna, ætlar að beita sér fyrir meiri merkingum afurða á markaði.
Í leiðara blaðsins er farið nokkuð yfir þróun svínaræktar síðustu árin, en hún hefur sem sumar aðrar búgreinar þróast á þann veg, að lítil bú hafa dottið út og önnur stærri orðið ríkjandi í framleiðslunni.
Minnt er á að neytendur séu sífellt að verða meðvitaðri og ábyrgari við vöruval, þó verðið stjórni miklu um hvað sé keypt.
Sagt er, að sennilegt sé að neytendur vilji geta valið kjöt frá þeim sem þeir telja stunda framleiðsluna samkvæmt þeim gildum sem þeir vilja að séu ráðandi við eldi dýranna.
Sé hins vegar horft til þeirra sem vinna vöruna á markað, þá er augljóst að það veldur ákveðnum vanda að merkja t.d. kjötvörur hverjum framleiðanda; að einhverjar skinkusneiðar séu frá þessum og hinar frá öðrum svo dæmi sé tekið.
Síðan vex flækjustigið enn, ef framleiðendur eru margir líkt og er t.d. varðandi sauðfjáræktina og því hafa sumir neytendur farið þá leið að kaupa sér lambakjöt að hausti beint frá framleiðenda sem þeir þekkja og treysta og ganga síðan sjálfir frá því í neysluumbúðir.
Víst væri æskilegt að neytandinn gæti gengið að vöru frá þeim bónda sem henn treystir best en það verður að sýna því skilning, að það eykur vanda sláturhúsa og vinnslustöðvanna talsvert en ætti þó að vera hægt varðandi það kjöt sem selt er í heilum skrokkum.
En allt eykur þetta vinnu, fyrirhöfn og þar með kostnað.
Við þetta er því að bæta að SS sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu 26/4/2024:
,,Vegna mjög villandi fyrirsagnar á forsíðu Bændablaðsins frá 24. apríl s.l. mætti draga þá ályktun að SS upprunamerkti ekki kjötvörur.
Af þessu tilefni er rétt að árétta að SS upprunamerkir allar kjötvörur. Bæði hreinar kjötvörur eins og áskilið er í lögum og einnig allar samsettar vörur, sem er ekki lagaskylda, en SS upprunamerkir eftir sem áður. SS telur mjög mikilvægt að neytendur séu upplýstir um uppruna kjöts og notar fánarönd til frekari aðgreiningar á allar þær vörur sem eingöngu innihalda íslenskt kjöt.“
Sumt er gerlegt en annað ekki.
Við vitum ekkert um frá hvaða búi unnar mjólkurvörur eru, s.s. skyr, ostur, rjómi, mjólk o.s.frv.
Sama gildir um svo ótalmargt annað og því verðum við að treysta eftirlitsaðilum fyrir eftirliti með framleiðslunni, þ.e. Matvælastofnun og heilbrigðiseftirliti.
Myndir og textatilvísanir eru fengið úr Bændablaðinu.

Færðu inn athugasemd