Í Heimildinni er í grein sem fjallar um frumvarp til laga sem samþykkt var á Alþingi skömmu áður en þingmenn fóru í jólafrí.

Margt áhugavert kemur þar fram og má t.d. nefna, að einn þingmannanna sem rituðu undir frumvarpið játar á sig mistök, virðist sjá eftir að hafa skrifað undir og eftir honum er haft úr hlaðvarpsþætti:
,,„Ég gekk bara aðeins of hratt um gleðinnar dyr.““
Það er ekki neitt smávegir ,,bara“ og ,,aðeins“ eins og eitt sinn var sagt, en samt gott að menn játi hreinskilningslega þegar þeir gera mistök.
Þingmaðurinn segir einnig:
,,[…] að með frumvarpinu væri verið „að opna með frekar lúmskum hætti í rauninni á bara opinn tékka til samruna og sameiningar, algjörlega óháð því hvaða búgreinar við erum að tala um og óháð því hvort um sé að ræða afurðastöðvar […] í eigu meirihluta bænda“.
Sé þetta rétt eru mistökin mikil, en vitanlega valt það ekki á afstöðu eins stjórnarandstæðings á þingi hvort málið yrði að lögum, því vilji ríkisstjórnarmeirihlutans stóð til að fá málið samþykkt.
Eins og ritari skilur þetta, er um að ræða viðbrögð við því að á Norðurlandi hafa menn ekki getað komið sér saman um öfluga afurðastöð fyrir sláturfénað og því ekki náð að hagræða í rekstrinum og mun hér aðallega vera átt við sameiningu sem tekur til sauðfjárslátrunar og vinnslu sauðfjárafurða.
Fram kemur í umfjöllun Heimildarinnar, að hinn nýkjörni formaður Bændasamtakanna, sem er sauðfjárbóndi, hafi verið áhugasamur um að frumvarpið yrði að lögum.
Í greininni segir:
,,Fyrstu vikurnar í mars varð hallarbylting í Bændasamtökum Íslands. Hópur sem sagður er standa nærri Kaupfélagi Skagfirðinga náði yfirráðum í félaginu eftir að hafa boðið sig fram gegn sitjandi formanni og stjórn.
Í forgrunni hópsins er […], nýr formaður samtakanna, sem hefur lýst samþykkt frumvarpsins sem miklum sigri fyrir bændur og neytendur.
[Formaður] Bændasamtakanna sendi nýja umsögn [um frumvarpið] frá samtökunum í tölvupósti til atvinnuveganefndar sama dag og [það] var samþykkt. […] [Þar] segir að það sé „einhuga afstaða stjórnar Bændasamtaka Íslands að styðja við frumvarpið enda er það mat stjórnar að samþykkt [þess] feli í sér mikla hagsmuni fyrir bændur, neytendur og afurðageirann“.“
Það sem þarna er sagt, er þess eðlis, að sem fyrst þarf að koma fram hvort rétt er sagt frá, því sé þetta allt rétt, eru Bændasamtökin komin á nýjar slóðir og líklega aftur til tíma sem ríktu fyrir daga tveggja síðustu formanna Bændasamtakanna.
Þar til hið sanna kemur í ljós er erfitt að fjalla um málið, en gera verður ráð fyrir að núverandi formaður og stjórnin sem með honum situr, hreinsi sig af þessu og verður ekki öðru trúað en að frásögn Heimildarinnar verði borin til baka með trúverðugum hætti.
Verði það ekki gert, blasir við ný en þó gömul staða hjá Bændsamtökunum og eftir situr spurning um hvert þau séu að stefna.
Í dálki til hliðar við þá grein sem hér er til umfjöllunar, er eftirfarandi texti:
,,Veigamikil rök fyrir samþykkt frumvarpsins voru meðal annars þau að íslenskur landbúnaður, sem selur sínar vörur nær einvörðungu á innanlandsmarkaði, standi í harðri samkeppni við erlenda framleiðendur. Er þar vísað í að tollasamningar við Evrópusambandið heimili innflutning á landbúnaðarvörum til Íslands.
Heimildin greindi […} frá því í fyrrasumar að fyrirtæki [í landbúnaði] hafi flutt inn á bilinu 74 til 94 prósent af öllu svínakjöti sem flutt var inn til landsins á árunum 2019 til 2022.
Sömu fyrirtæki, og fleiri svipuð, fluttu inn á bilinu 18 til 45 prósent af öllu alifuglakjöti sem flutt var til landsins samkvæmt sömu samningum, á sama tímabili. Með öðrum orðum: fyrirtæki í landbúnaði eru umfangsmestu innflytjendur erlendra landbúnaðarvara og því sinn helsti samkeppnisaðili.
(Grein þá sem hér er vísað til má nálgast á tenglinum sem er í upphafi greinarinnar.)

Færðu inn athugasemd