
Það getur verið gott að virða fyrir sér dýrin á tímum eins og þeim sem við lifum í mannheimum þessa dagana. Þar getur ríkt kærleikur og notalegheit þvert á tegundir svo sem sjá má á myndinni hér að ofan og þeirri fyrir neðan.

Það er að mati þess sem þetta ritar, gott að virða fyrir sér dýrin á tímum eins og þeim sem nú ríkja í heimi okkar mannanna; tímum sem allt of mikið einkennast af hörðum átökum á vettvangi stjórnmála og sem síðan brjótast sumsstaðar út í vopnuðum átökum milli stríðandi fylkinga.
Við sjáum það sem er að gerast í Palestínu, Ísrael og löndunum þar í grennd, þar sem heiftin gengur jafnvel svo langt að hinir dauðu fá ekki að hvíla í gröfum sínum; eru jafnvel grafnir upp, væntanlega til að ganga úr skugga um hvort þeir séu ekki endanlega dauðir!?

Það var greint fá því á CNN.COM fyrir stuttu að grafreitir hefðu verið eyðilagðir og fréttinni fylgdi að blaðamenn hefðu séð þess merki að umrótið í grafreitunum hefðu ekki einungis verið eftir sprengjukast, heldur líka uppgröft.
Þarna fá hinir dauðu sem sagt ekki að kúra saman í friði, því það er ófriður á yfirborðinu og hann skal ná niður í jörðina líka!
Villimennskan er ekki lítil þegar svona er komið og reyndar er erfitt að skilja hvað mönnum gengur til og því var það, að setja þurfti bæði upphrópunar og spurnarmerki í lok setningarinnar hér fyrr.
Tilurð Ísraelsríkis og síðan þróun, er afleiðing hinnar hörmulegu heimstyrjaldar sem kölluð hefur verið heimsstyrjöldin númer tvo og stundum ,,síðari“.
Gerð í þeirri von og trú, að um hefði verið að ræða atburðarás sem ekki endurtæki sig.
En það ,,gleymdist“ að taka tillit til þess, að í landinu sem úthlutað var til þeirra sem Nazistar ætluðu að útrýma, var fólk, bjó fólk og hafði búið um langan tíma.
Við vonum að eitthvað hafi lærst, en horfum með ugg í brjósti til þess sem er að gerast í Miðausturlöndum og í austanverðri Evrópu og jafnvel víðar.
Í upphafi þessa pistils var litið til dýranna.
Hjá þeim og börnunum okkar býr sakleysið og þó vissulega geti kastast í kekki í leik barnanna, þá jafnar það sig með góðri hjálp hinna fullorðnu.
Við verðum að vona að fram komi einhverjir sem geti stigið fram og borið klæði á vopnin, jafnað ágreininginn í heimi hinna fullorðnu, miðlað málum, gengið á milli og fengið menn til að ræða sig að niðurstöðu, frekar en berast á banaspjótum, sjálfum sér til tjóns og framtíðinni til ógagns.

Færðu inn athugasemd