Þessa dagana skekur umræða um hvalveiði eða ekki hvalveiði sviðið og er það að vonum, sé litið til þess sem gerðist á síðastliðnu sumri, nánast degi áður en vertíðin átti að hefjast.

Bátarnir voru tilbúnir, skveraðir, nýmálaðir og yfirfarnir og allt klárt til taka til höndum og hefja veiðar en þá gerðist það!

Ráðherra hvalveiðimála o.fl. fékk vitrun, kastaði fram reglugerð og stöðvaði veiðar, sem ekki voru hafnar, en voru í þann veginn að hefjast!

Reglugerðin virðist hafa legið tilbúin í ráðuneyti hvalveiða og því var hægt að kasta henni fram með nánast engum fyrirvara; staða þeirra sem búin voru að ráða sig til starfa við veiðarnar skipti engu máli og að sjálfsögðu ekki hagur fyrirtækisins heldur!

Þannig er stjórnsýslan að það eimir enn eftir af því sem var t.d. í landbúnaðargeiranum á árum áður: að pólitíkusar og dindilmenni þeirra gátu fyrirvaralítið sett stól fyrir dyr ef þeim sýndist svo.

Hér verður því ekki haldið fram að ráðuneyti hvalræðisins sem nú er orðið – þar sem sumir eru farnir að telja niður tíma ráðherra í embætti – sé einstakt í íslenskri stjórnsýslu, síður en svo.

Við fréttum ekki allt, sjáum ekki allt og heyrum ekki allt og nær víst er, að ýmislegt fer fram á bak við luktar dyr og bak við tjöld sem við höfum ekki hugmynd um og sem alls ekki stendur til að láta okkur vita um.

Nú er svo að sjá, sem ráðherra gæti þurft að taka pokann sinn og jafnvel að ríkisstjórnin geti sprungið vegna ákvarðana sem teknar voru í flaustri síðastliðið sumar og eins og einhver sagði einhverntíma:

Það er lengi von á einum!

Ríkisstjórnin er þannig samsett að við því mátti búast að eitthvað í þessa veru gæti gerst.

Staðan er sú, að þeir sem voru vinstra megin við vinstrið, hafa fundið sér aðsetur í því sem kallað er Vinstri græn og þaðan kemur forsætisráðherrann, þá kemur japl jaml og fuður sem heldur til í Framsóknarflokknum og að lokum verndarar einkavina og valdra, sem hafa sitt bú í Sjálfstæðisflokknum.

Í þeim síðastnefnda var fjörið, þar til ráðherrar skiptu um sæti á þann hátt að fjármálaráðherra varð utanríkisráðherra og utanríkisráðherra varð fjármálaráðherra!

Í raun breyttist ekki neitt, nema að allt féll í ljúfa löð og hefur verið rólegt á því heimili síðan.

Fjörleysið er hjá Framsókn, þar sem siglt er milli skers og báru í þeirri von að allt muni þetta blessast, fjandvinátta haldist og hver hafi sitt.

En nú er svo komið, að helst lítur út fyrir að stjórnin sé við það að liðast í sundur, sem samt er ólíklegt að gerist, því römm er sú taug sem bindur menn saman um hagsmunagæslu fyrir útvalda.

Færðu inn athugasemd