
Allir þurfa að borða eitthvað og til að geta fengið gott í maga, þarf aðgangur að matvælum að vera góður.
Við erum svo heppin að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af fæðuskorti og það síður en svo. Það er frekar að við þurfum að passa okkur á því: að gæta hófs í neyslunni!
Við sjáum af mynd þeirri sem er fyrir miðju hér fyrir ofan, að það hefur ekki alltaf verið þannig að matvæli þjóðarinnar hafi verið næg.
Réttara væri líklega að segja umfram þarfir, líkt og segja má að nú sé, þegar flutt er inn allt það sem ekki er hægt – a.m.k. ekki með góðu móti -, að framleiða innanlands og ekki nóg með það, því flutt er inn töluvert af t.d. kjöti sem vel er hægt að framleiða í landinu í stað þess að flytja það inn. Til dæmis um það má nefna úkraínskt kjúklingakjöt sem engin þörf er fyrir, auk þess sem það er varasöm vara.
Framkvæmdastjóri Bændasamtakanna hefur áhyggjur af samdrætti í kjötframleiðslu og af myndinni að dæma er það kindakjötsframleiðslan sem áhyggjunum veldur.

Þegar leitað er í Bændablaðinu finnum við að innflutt kjöt er smátt og smátt að taka meira pláss á markaðnum (blái flöturinn á myndinni til vinstri) og enn betur sést þróunin á myndinni til hægri.
Hafa verður samt í huga að þjóðinni hefur verið að fjölga mikið á síðustu árum og einnig það, að þar er um að ræða fólk sem er að stærstum hluta af erlendum uppruna.
Þó kindakjöts sé neytt um víða veröld, þá er það yfirleitt ekki í sama magni hlutfallslega og gert hefur verið til skamms tíma hér á landi. Gera má ráð fyrir að stór hluti hinna nýju þjóðfélagsþegna hafi aðrar neysluvenjur en við sem fyrir erum og svo má náttúrulega ekki gleyma því, að neyslumynstur íslensku þjóðarinnar sjálfrar hefur verið að breytast mikið á undanförnum áratugum.
Til gamans má skjóta því inn hér, að ritari dvaldi um nokkurra vikna skeið í Svíþjóð fyrir skömmu og sá þá, að í boði voru grillaðar lambakótilettur á veitingastað sem hann rakst á í verslunarmiðstöð; það sagði til sín svengd og fallið var hátt!
Á diskinn kom óskapnaður, ólseigur og leiður til neyslu.
Vertinn var spurður hvaðan kjötið væri og svarið var Póllandi!
Ekki sænskt, ástralskt, né íslenskt og gæðin eftir því!
En aftur að efninu.
Við sjáum á myndinni á skyggða fletinum að ekki er allt sem sýnist og það er ekki innflutningur á kindakjöti sem er að ógna markaðnum, því það eru aðrar kjöttegundir sem verið er að flytja inn:
Nautakjöt 19%, svínakjöt 17,8%, alifuglakjöt 17,5% og kindakjöt 0,2%. Það er sem sagt ekki verið að þrengja að kindakjötsframleiðslunni með innflutningi erlendis frá, það eru aðrir kjötframleiðendur sem fyrir því verða og það svo um munar.
Greinin sem er lengst til hægri á fyrstu myndinni í þessum pistli, fjallar um allt annað mál, þ.e.a.s. hvort hægt sé að tryggja að jarðir og lönd haldist í landbúnaðarnotkun.
Þar eru ýmis augljós ljón í veginum og hver er t.d. sá bóndi, sem vill selja jörð sína og ævistarf fyrir lágt verð, ef honum býðst annað og miklu betra?

Færðu inn athugasemd