
Enn er það orkubúskapurinn sem er ofarlega í huga og nú er það orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða sem sendir grein í Morgunblaðið og segir frá því að orkuskorturinn kosti um hálfan milljarð og bætir því við að olíunotkun muni aukast um 3,4 milljónir lítra!
Elías Jónatansson segir í grein sinni:
,,Engum dylst að raforkuskortur er yfirvofandi á Íslandi. Ekki eru þó öll sund lokuð því við getum áfram treyst á jarðefnaeldsneyti til að þreyja þorrann og góuna og flytjum inn eina miljón tonna ár hvert. Því miður stefnir í það að á árinu 2024 fimmtánfaldist olíunotkun Orkubús Vestfjarða (OV) frá árinu í ár, fari úr 220 þús. lítrum í 3,4 milljónir lítra. Aukning í losun gróðurhúsalofttegunda verður þá 9.200 tonn. Hægt er að vinna bug á þessu vandamáli og sóun fjármuna með virkjun innlendrar orku.“
Eins og sést á síðustu orðum þessarar tilvitnunar, þá þarf þetta ekki að vera svona. Við erum svo lánsöm að landið okkar er ríkt af orku af ýmsu tagi sem ekki fæst nýtt þjóðinni til hagsbóta. Því er það að ekki verður annað séð, en inn verði fluttir orkuberar frá öðrum löndum um fyrirsjáanlega framtíð og það sem fram kemur í grein Elíasar er enn eitt dæmið um það.
Það næst ekki fram að virkjuð séu fallvötnin okkar til orkuöflunar, vindorkan mætir andstöðu, m.a. vegna þess að sumum þykir ekki prýði að myllunum nema þær séu í útlöndum o.s.frv.
En alltaf má finna lausnir og sem betur fer er hægt að flytja inn jarðefnaeldsneyti og nýta orkuna sem í því býr!

Í annarri aðsendri grein í Morgunblaðið, er farið yfir það hvernig lagafyrirkomulagið er varðandi skatta og skyldur af mannvirkjum vegna orkuöflunar.
Sá sem skrifar greinina er oddviti og sveitarstjóri í Skeiða og Gnúpverjahreppi og í henni kemur fram:
,,[…]að enginn ávinningur er fyrir sveitarfélög að skipuleggja og heimila uppbyggingu á orkumannvirkjum þar sem þau skila litlum sem engum tekjum í nærumhverfið. Í sumum tilfellum skila orkumannvirkin fjárhagslegu tjóni fyrir sveitarfélögin og íbúana í nærumhverfinu. Sú staðreynd varð til þess að í júní skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp til að endurskoða skattaumhverfi orkuvinnslu. Starfshópurinn átti að skila af sér 31. október. Síðan var því frestað til 6. desember og þegar þetta er skrifað hefur ekkert komið frá fjármála- og efnahagsráðherra um boðaðar skattabreytingar.“
Þar sem eru hnútar í ,,kerfinu“ sem þarf að leysa eru skipaðar nefndir. Menn hittast og spjalla, fá greitt fyrir nefndarsetu, skila af sér áliti o.s.frv., málum er frestað og að lokum gerist ekki neitt!
Þetta er ,,möppudýra“- veröldin sem við erum búin að koma okkur upp í ,,kerfinu“ góða; menn hittast, spjalla, draga ályktanir, skrifa niður minnispunkta og skila af sér skýrslu sem stungið er í hillu og varðveitt í viðeigandi skjalasafni.
Hér gildir hið gamla að ,,eftir japl jaml og fuður“ eru hlutirnir ,,grafnir út og suður“, líkt og komist var að orði af öðru tilefni.
Það sér hver maður, að svona getur þetta ekki gengið til áfram, en hvenær það blessaða ,,áfram“ kemur, er vandi um að spá og satt að segja fátt sem bendir til þess að ,,kerfið“ okkar verðið skilvirkara í náinni framtíð.
Hugsanlega þarf, til þess að við vöknum upp af þyrnirósarsvefninum, að til komi hrun af nýrri gerð; ekki hrun sem ævintýramenn kölluðu yfir þjóð sína fyrir 16 árum, heldur hrun sem veldur efnahagslegri kreppu af öðru tagi og sem sprottinn er af öðrum rótum; rótum sofandaháttar, ákvarðanatökufælni og almenns sinnuleysis.
Það vantar samt ekki að varnaðarorðin eru komin fram, það sem vantar er að það sé hlustað og brugðist við.

Skildu eftir svar við Ingimundur Bergmann Hætta við svar