Guðmundur Helgi Þórarinsson formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna ritar grein á síðu félagsins, vm.is.

Hann greinir þar frá því að upp úr viðræðum félagsins við viðsemjendur þess hafi slitnað í byrjun desember, en þær höfðu engu skilað og vélstjórar á fiskiskipunum eru því samningslausir.
Fram kemur í grein Guðmundar að vélstjórar hafi ekki fengið leiðréttingu launa sinna síðan árið 2019 og að þeir séu samningslausir, eins og fyrr sagði.
Útgerðin er ekki í kröggum því hún ,,hagnaðist um 78 milljarða, 78 þúsund milljónir“, á síðasta ári.
Það ár voru 22 milljarðar greiddir út í arð.
Guðmundur greinir frá því að ef gengið yrði að ítrustu kröfum vélstjóranna þá myndi það auka kostnað útgerðanna um 2 milljarða.
,,Þetta er dropi í hafið og óskiljanlegt að útgerðin skuli ekki sjá sóma sinn í því að semja við starfsfólkið sitt.” segir í greininni.
Þegar svona er komið er líklegast að boðað verði til verkfalls, sem trúlega yrði síðan bannað með lögum af ríkisstjórn auðstéttanna sem nú situr undir stjórnarforystu Vinstri grænna.
Við sáum viðhorf þeirra til sjávarútvegsins og þeirra sem að honum starfa, þegar hvalveiðar voru bannaðar degi áður en þær áttu að hefjast að sumrinu; var frestað fram á haust og þá leyfðar að nýju, þegar reikna mátti með að skilyrði til veiða væru orðin verri!
Voru sem sagt heimilaðar þegar farið var að hausta og auknar líkur voru á að eitthvað gæti farið úrskeiðis við veiðarnar.
Nú er svo að sjá sem handhafar fiskveiðiheimilda, ætli að láta sig hafa það að stöðva rekstur sinn vegna krafna sem eru smáaurar í rekstri fyrirtækja þeirra.
Guðmundi formanni og félögum í VM, er hér með óskað góðs gengis í baráttu sinni fyrir leiðréttingu launa umbjóðenda sinna.

Færðu inn athugasemd