Til stendur að ,,kolefnisjafna“ flakk yfir áttatíu fulltrúa til Abú Dabí á dögunum, en menn vita bara ekki hvernig.

Best hefði verið að sleppa flakkinu og gera eitthvað þarfara, en það verður ekki gert úr því sem komið er og því þarf að klóra yfir og það verður örugglega gert með tilþrifum, líkt og oftast gerist hjá því fólki sem í hlut á.
Morgunblaðið kannaði hve stóran skóg þyrfti að rækta til að ,,jafna“ uppátækið. Í ljós kom að um var að ræða talsverða skógrækt eða um 11 hektara, en eins og allir vita, nema kannski Vinstri græn, þá gerist það ekki eins og hendi sé veifað að skógur bindi allt það kolefni sem sleppt var lausu út í andrúmsloftið við flakk áttatíu- og eitthvað- menningana sem snöruðu sér suður til þess eins að þusa út og suður og sóla sig í leiðinni, ekki má gleyma því!.
Svona er staðan, að þegar þeim sem komist hafa í toppstöður í þjófélaginu okkar langar í flottan skreppitúr, er til nóg af peningum í ríkissjóðnum galtóma og það liggur við að segja megi að helsta spurningin sé:
Hvað viltu mikið væni?

Við sjáum í auglýsingu frá reiðhjólaversluninni Erninum, að til stendur að setja virðisaukaskatt á öll reiðhjól um áramótin og víst er að það verður gert til að tryggja sem unnt er að hinir snauðu í samfélaginu ferðist sem minnst á vistvænum farartækjum.
Það fara ekki saman orð og æði og ekki er heldur svo að sjá, sem ætlunin sé að hvetja fólk til að ferðast á reiðhjólum í stað bifreiða.
Líklega hefur virðisaukaskattleysið á reiðhjól veri útbúið í einhverju umhverfisafturhvarfi til fortíðar: Reiðhjól, reiðhestur?
Allt fer vel að lokum, því ruslið okkar verður sent til Svíþjóðar, þar sem það verður brennt og orkan úr því nýtt.
Svoleiðis óskunda gerum við nefnilega ekki gagnvart náttúrunni og því sendum við ruslið úr landi með flutningaskipum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, þar er því síðan skipað upp og flutt til brennslu og orkan sem úr því kemur nýtt til góða fyrir sænska þjóð.
Sumir sjá heildarmyndina, en aðrir ekki og það er borið upp á strútinn að hann stingi höfðinu í sandinn og sjái þar með ekki það sem gerist í kringum hann.
Sá myndi trúlega glotta við gogg ef hann mætti fylgjast með því sem gerist á Íslandi.

Færðu inn athugasemd