Einhver orðaði það svo að það kostaði klof að ríða röftum og hvort sem það er nú rétt eða ekki, þá er það víst að það kostar sitt að virkja sólarorkuna og það þarf eitt og annað til að geta gert það.
Kínverjar hafa veðjað á sólarorkuna til ýmissa nota og eru mörgum öðrum þjóðum fremri í þeirri tækni. Yfir þetta er dálítið farið í grein á WSJ.COM og ugglaust má finna vangaveltur um þetta víðar. Greinin er myndskreytt svo sem vera ber og hér að neðan er ein fyrsta myndin sem rekist er á við lestur greinarinnar.

Svo sem sjá má, þá eru Kínverjar framarlega í smíði rafknúinna bíla og á myndinni sjást nokkrir slíkir sem bíða útskipunar og eru væntanlega til afhendingar á vestræna markaði.
Svo vitnað sé til fyrstu setningarinnar í þessari færslu, þá verða rafbílar ekki til úr engu frekar en aðrir bílar og það sem í þá þarf er ekki óþrjótandi auðlegð eins og margoft hefur verið bent á og þá má ekki gleyma því, að það þarf nýja og annarskonar innviði í samfélögunum til að hægt sé að nýta þessa gerð af bílum.
Til að mynda, þarf að framleiða nægjanlegt rafmagn og það þarf að komast að niðurstöðu um hvernig á að gera það og hverju má fórna.
Í fyrsta lagi til að framleiða raforkuna, en einnig þarf að huga að því, hvernig eigi að koma orkunni til notenda hennar, í þessu tilfelli bifreiðaeigendanna.
Við þekkjum þetta allt hér á ísa köldu landi og gott væri t.d. núna að hafa háspennulögnina á Reykjanesi sem eitt sveitarfélag þar á nesinu hefur lengst af hafnað að verði lögð, eða þar til nýlega, að gefið var eftir.
Ekki háspennulínu í minni sveit!
Hefur verið svarið við óskum um heimild til að leggja línuna og við það hefur setið um langan tíma, eða þar til nýlega.
_ _ _
Hér að neðan sjáum við dæmi um hvernig farið er að, við öflun sólarorku og við sjáum að það er ekkert smáræðis landsvæði sem er fórnað til þess.

Þetta er nú aldeilis ,,flæmini“ eins og maðurinn sagði og við skulum veita því athygli að myndir sýnir ekki nærri allt svæðið sem um er að ræða; er aðeins upphafsmynd frásagnar fjölmiðilsins.
Menn láta sig dreyma um að sigla á raforku, fljúga á raforku og aka á raforku og einnig gera allt það annað sem gert hefur verið fram til þessa, með nýtingu annarrar orkubera, s.s. olíu, kola og kjarnorku.
Allt eru þetta enn sem komið er fjarlægir draumar og fátt sem bendir til að það muni breytast og ekki síst er það staðan hjá okkur sem hægt breytist.
Fyrir þar fyrsta, má ekki má afla þeirrar raforku sem þörf er fyrir og það virðist vera vegna þess að öfl í samfélaginu virðast trúa því, að rennandi vatn sem látið er snúa hverflum breytist í rafmagn.
Virðast trúa því að vatnið hætti að renna!
Hér vantar eitthvað á upplýsinguna, því vatnið hverfur ekki og það er ekki vatnið sem verður að raforku.
Það er orkan sem bundin er í rennsli vatnsins (fallorkan) sem breytt er í raforku og alveg fráleitt að trúa því að það sé vatnið sem breytist í rafmagn, við að streyma í gegnum vélbúnaðinn.
Það er ótrúlegt til þess að hugsa, að fólk sem alið er upp við virkjanir sem verið hafa starfandi í áratugi, trúi því að vatnið sem streymir í gegnum hverfla virkjananna breytist í rafmagnið sem frá þeim kemur.
Líklegast er að þeirri dellu sé ekki trúað, en að viðkomandi finni einfaldlega hjá sér þörf til að tefja, spilla og eyða möguleikum til framfara, en hvers vegna það er svo, er ekki á færi ritara að svara.
Rétt er að upplýsa í lok þessa pistils, að ólíklegt er, svo ekki sé meira sagt, að flugvélar sem gangi fyrir rafmagni taki sig á loft og fljúgi milli landa hlaðnar farþegum og farangri á næstunni.
Til þess að það verði unnt, þarf margt að gerast og sem stendur er það ekki í sjónmáli.

Færðu inn athugasemd