Verðbólga, skólasameiningar, jarðskjálftar og heimsmál

Ógnin sem yfir okkur vofir er verðbólguholskeflan sem teiknarinn Halldór túlkar svo vel á myndinni. Hún er að hvolfast yfir með öllum þeim afleiðingum sem af geta hlotist, en við sjáum hver er að reyna að sigra holskefluna, sjáum hverju hann beitir og drögum okkar ályktanir; stríðið vinnst ekki með þessum hætti, það þarf annað að koma til, en hvað?

Hætt hefir verið við áform um sameiningu skóla en eins víst er að um sé að ræða lognið á undan næsta stormi. Við vitum af reynslunni að fáu er að treysta og vegna þess að Sjómannaskólinn er okkur sérstaklega kær, er rétt að hvetja til stofnunar hollvinasamtaka um skólann. Stjórnvöld ágirnast hann til nota fyrir dómstól, en ef það vantar enn meira húsnæði fyrir þá starfsemi verður það að finnast annarsstaðar.

Jarðskjálftahrinan á Reykjanesi heldur áfram og líkur einhvertíma með gosi en við vitum bara ekki hvenær! Það er erfitt að berjast við þau reginöfl sem í iðrum jarðar búa, en eins og áður hefur verið bent á, tókst margt að gera í Vestmannaeyjagosinu og af því má læra. Getum líka lært mikið af æðruleysi eyjamanna allra og munum að konur eru líka menn svo því sé nú haldið til haga, á tímum fjölskrúðugra kyngreininga!

Að lokum eru það hörmungarnar sem ganga yfir af mannavöldum í Ísrael, Palestínu og víðar sem eru hugstæðar. Þó svo virðist sannarlega sem um hamfarir sé að ræða, þá eru þær ekki af náttúrunnar völdum, heldur misviturra manna, sem á sínum tíma tóku rangar ákvarðanir.

Vonandi finnast einhverjir sem allra fyrst til að hafa áhrif á þá stöðu sem þar er uppi en hverjir það verða liggur ekki fyrir, þegar þessar línur eru páraðar.

Eitt svar við “Verðbólga, skólasameiningar, jarðskjálftar og heimsmál”

  1. […] Nóv 9, 2023 Óflokkað Verðbólga, skólasameiningar, jarðskjálftar og heimsmál […]

    Líkar við

Færðu inn athugasemd