Það er þrengt að bændum

,,Bóndi er bústólpi og bú er landstólpi“, er stundum sagt, en við sjáum, af greinunum hér fyrir neðan, að það gengur á ýmsu og svo er að sjá sem máltækið sé ekki í hávegum haft.

Við erum greinilega heppin, sé tekið mið af því sem er að gerast í Bandaríkjunum og sem fréttir hafa verið að berast af undanfarna mánuði.

Það sem sagt er frá er eitt lýsandi dæmi um að vissara er að ganga hægt um gleðinnar dyr við nýtingu gæða náttúrunnar.

Í fréttinni segir frá því að dælt hefur verið upp slíku vatnsmagni úr iðrum jarðar að nú er komið að því að vatnið er á þrotum.

Sé rýnt í myndina sést að vökvunarbúnaðurinn er engin smásmíði, enda vitum við að ,,allt er stórt í henni Ameríku“. Hér hefur sem sagt verið gengið of langt og svo miklu magni verið dælt upp að jarðvatnsforðinn – sem er sem stöðuvötn þar neðanjarðar – er að verða þurrausinn.

Þetta vandamál er ekki að herja á íslenskan landbúnað, en það er annað og lítt betra sem þar er við að fást.

Verðbólgudraugurinn hefur tekið völdin, vextir eru í hæstu hæðum og það er ekki gott fyrir einn eða neinn og síst af öllu, þau sem byggja tilveru sína á mikilli fjárfestingu, hægri veltu og ríkisstuðningi sem ekki er gott á að treysta.

Ríkisstjórnin hefur gert sem hún hefur getað til að valda landbúnaðinum kárínum og eitt það versta, er þegar hún tók sig til og galopnaði íslenskan matvörumarkað fyrir úkraínsku kjöti, án allra tolla og að því sem virðist, án þess að gera sömu kröfur til vörunnar hvað varðar heilbrigði og aðbúnað í eldi, sambærilegt því sem gert er gagnvart íslenskri framleiðslu.

Skýring var gefin á kæruleysinu og hún var sú: að Úkraína væri svo langt frá Íslandi að engar líkur væru á, að menn færu að flytja þaðan landbúnaðarvörur. Það var nú gert samt, enda viðskiptamenn ekki alveg ókunnugir landafræði og flutningakerfum.

Þegar að var gáð, reyndist landið alls ekki vera lengra í burtu en það hafði alltaf verið og með nútíma samgöngum, reyndist frekar auðvelt að flytja vörur þaðan til Íslands.

Sagan segir að frá Úkraínu hafi verið fluttar inn kornvörur um árabil og almennt hafa verið talsverð viðskipti við löndin austur þar, en af þessu má sjá að fjarlægðarskynjun íslenskra þingmanna ræðst ekki af vegalengdum sem mældar eru á venjulegan mælikvarða, heldur bara af því sem þeim finnst þann og þann daginn.

Á myndinni í miðjunni sjáum við að maðurinn sem ritstýrði ,,Ræktum Ísland!“, ágætri samantekt, sem of lítið hefur verið gert með, telur að sóknarhugur sé í íslenskum bændum.

Sé það rétt metið, sem gera má ráð fyrir, má reikna með því að sóknin beinist nú um stundir, gegn íslensku ríkisstjórninni og gjörðum hennar í garð landbúnaðarins.

Það er frekar sárt til þess að vita, að þau sem stjórna þjóðinni, geri það án þess að huga að því hvernig gjörðir þeirra koma við fólkið í landinu.

Eitt svar við “Það er þrengt að bændum”

  1. […] Nóv 6, 2023 Óflokkað Það er þrengt að bændum […]

    Líkar við

Færðu inn athugasemd