Ekki er allt sem sýnist

Í ágætri og trúverðugri umfjöllun um ástandið og ekki síst móralinn í Úkraínu, sem birtist á cnn.com í gær kemur margt fram sem margir telja sig hafa vitað, en sem ekki hefur verið haldið mikið á lofti.

(https://www.cnn.com/2023/11/04/europe/ukrainians-face-prolonged-war-with-russia-in-stalemate-intl)

Rætt er við fólk, sem er í mismunandi stöðu og allt virðist bera að sama brunni; bjartsýnistal Zelensky er sett fram til að reyna að stappa kjarki í þjóðina, en ekki byggt á raunsæi sem styðst við staðreyndir.

Hafi verið minnst á undanfara átakanna, þá hefur það farið framhjá þeim sem þetta párar, en þau munu samt vera mörg sem muna eftir því sem gekk á í Donbas árum saman og algjörlega án þess að stjórnvöld í Kív, gerðu neitt til að hindra það sem þar var að gerast.

,,Það er illt að egna óbilgjarnan“, er stundum sagt og það sannast ágætlega hér, því ögranir og meira að segja manndráp var stundað af ótrúlegri ósvífni og seint gleymist að eitt sinn var gengið svo langt að skjóta niður hollenska farþegaþotu, sem af óútskýrðum ástæðum flaug yfir átakasvæðið þegar mikið gekk á.

Búnaðurinn sem notaður var til að skjóta niður flugvélina var vissulega rússneskur, enda hafa Rússar sjálfsagt talið sig skuldbundna til að styðja sitt fólk, en hvað sem því líður, er vonandi að menn hafði það í huga í framtíðinni, að skipuleggja farþegaflug þannig að ekki sé flogið yfir átakasvæði.

Menn geta rifist um það meðan sól er uppi og jafnvel lengur, hvað tilheyri hverju af landsvæðum á þessum slóðum, en sagan kennir að ekkert er hamrað í stein hvað varðar þá hluti.

Saga Evrópu hefur verið ,,lífleg“ á liðnum tíma ef svo má orða það.

Hernaðarátök geta verið lífleg á meðan á þeim stendur, en þeim sem missa sína undir slíkum kringumstæðum, finnst eflaust allt annað en ,,líflegt“ að taka á móti ástvinum sínum í líkpokum.

Það er sem mannskepnan ætli seint að komast úr því fari að jafna deilur og ágreining með ofbeldi; ætli seint að komast á það stig að meta meira sanngirni, réttsýni, réttlæti og skynsamlega undanlátssemi.

Að jafna ágreining með sanngjörnum samningum, þar sem niðurstaða er fundin með yfirvegun og með það að markmiði að jafna ágreininginn á þann hátt að allir sem að málum koma geti unað við sitt, er farsælla en að berjast sem ljón um það sem um er deilt.

Við erum ekki komin þangað og við sjáum það óþarflega víða um heiminn, að ágreiningur er óleystur og skýrasta dæmið þar um, eru hörmungarnar sem gengið hafa yfir og eru enn að gerast í Ísrael og Palestínu.

Myndirnar fylgja umfjöllun CNN og eru fengnar úr greininni sem vitnað er til í upphafi.

Eitt svar við “Ekki er allt sem sýnist”

Skildu eftir svar við Hugleiðngar eftir að hafa lesið grein á cnn.com um stöðuna í átökunum milli Úkraínu og Rússa. – Ingimundur Bergmann Hætta við svar