Um áramót

Það kennir ýmssa grasa á þessum síðasta degi ársins og í The Guardian er svo dæmi sé tekið fjallað um flug árásardróna sem komu(?) frá Úkraínu og var beint að bústað Putins forsætisráðherra Rússlands.

Hvort flygildin flugu, vita þeir sem vilja vita og gera má ráð fyrir að fylgst sé með hverri slíkri hreifingu með gerfihnöttum.

Hér á ísa köldu landi er allt við sinn vanagang, Inga Sæland er þriggja ráðherra maki og fer létt með og upp vakna spurning um hvort þörf sé fyrir karlana?

Til stendur að bjóða út dýpkun Landeyjarhafnar skv. því sem fram kemur í Morgunblaðinu, en eins og kunnugt er þá er það óþrjótandi verkefni, þannig að eftir nokkru er að slægjast.

Mynd úr Morgunblaðinu

Landeyjahöfn var byggð í bráðræði og þjónar litlum tilgangi öðrum en þeim að gera ferðalagið til Vestmannaeyja að lengir ökuferð, því í stað þess að aka til Þorlákshafnar eins og áður var gert, verður bíltúrinn fyrir flesta mun lengri.

Ritari þekkir báða ferðamáta, býr ekki í Vestmannaeyjum og heldur ekki í Reykjavík, en væri hann Vestmanneyingur myndi hann þyggja það með þökkum að sigla til Þorlákshafnar líkt og gert var og aka síðan þaðan til höfuðborgarsvæðisins eða hvert annað sem hann vildi fara.

Fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins býr yfir töfralausn á ferðavanda íbúa Vestmannaeyja og okkar hinna sem þangað vilja komast ofan af landi og nú er búið að endurvekja hugmyndir framsóknarmannsins, en í stað töfrabræðsluborsins mikilfenglega, skal nú nota gamaldags aðferðir við gangagerðina.

Við gerum ráð fyrir að göngin hugsanlegu verði milli ,,lands og eyja“, en það er komið babb í bát því jörðin er með líflegasta móti þessar vikurnar, en við gerum ráð fyrir að framsóknarmennirnir hugum stóru kunni ráð við því eins og öðru og geti a.m.k. kallað til hinn bandaríska bergbræðslumeistara til að leysa málið.

Færðu inn athugasemd