Samkvæmt því sem fram kemur í umfjöllun CNN.COM er stríðið milli Rússlands og Úkraínu farið að hafa óvæntar afleiðingar.
Það eru ferfætlingar sem forða sér frá átakasvæðunum (eftir því sem menn telja) og þeir virðast vera gefnir fyrir ófrið og þó ekki.
Um er að ræða úlfa sem þrífast illa á ófriðarsvæðinu og hafa nú brugðið sér yfir landamærin til Finnlands og það án þess að sýna vegabréf!

Myndin fylgir frétt CNN.
Úlfar þurfa að nærast og þeim þykir hreindýrakjöt gott og því er það, að blessuð hreindýrin eru veidd og étin af úlfunum.
Hvor Putin og Zelensky vita af þessu vitum við ekki og líklega stendur þeim nokk á sama, bara ef þeir fá að stríða í friði … hvernig sem það er nú hægt!
Hreindýrakjöt er gott segja úlfarnir, þ.e.a.s. ef þeir gætu sagt það og því er það, að farið er að sjá á hjörðum finnskra hreindýrabænda.
Stríðsrekstur hefur ýmsar afleiðingar, fyrir utan manndráp og eyðileggingar á verðmætum og þetta er enn eitt dæmið um það.
Við höfum fylgst með fréttum af úkraínskum árásum á fragtskip á siglingu, sem verður að telja eitthvert lúalegasta bragðið til að ná sér niður á á þeim sem mönnum er illa við og Bandaríkjamenn feta í fótspor þeirra úkraínsku og ráðast á báta á Kyrrahafi og sökkva þeim með manni og mús og ræna síðan olíuflutningaskipum.
,,Það sem höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það“ er stundum sagt og er ekki annað að sjá sem það komi hér fram.
Að ráðast á óvopnuð flutningaskip til að ná sér niður á ímynduðum óvini er eitt hið ómerkilegasta sem hægt er að gera, en tilgangurinn er væntanlega tilraun til að svelta menn til undanlátssemi.
Og gildir þá einu hver á í hlut: Það er einfaldlega lúalegt að ráðast á þá sem eiga sér enga leið til varnar og gildir þá einu hver á í hlut sem gerandi.
Hvort það er Úkraína, Bandaríkin, Rússland, Ísrael eða einhver annar, það er enginn eða a.m.k. lítill munur þar á.
Það væri mikils virði ef þjóðir og menn almennt gætu tekið upp á því að virða hver annan og sætta sig við, að öll erum við fólk; fólk sem myndar þjóðir og að öll eigum við óskorðan tilverurétt.
Höfum það í huga á þessum síðasta degi fyrir jólahátíðina og lifum fyrir friðinn og höfnum ófriði!

Færðu inn athugasemd