
Við sjáum á myndinni hér að ofan hvernig ferðast var um landið áður fyrr og hvernig þarfasti þjónninn var nýttur til þeirra ferðalaga.
Íslenska þjóðin hefur sem aðrar, lifað ,,tvenna tíma“ eins og það er stundum kallað og sú var tíð, að fólk fór leiðar sinnar um landið, ýmist á tveimur jafnfljótum eða að gripið var til ,,þarfasta þjónsins“.
Og ef tímarnir hafa verið tvennir, þá er nútíminn annar þeirra, gerum við ráð fyrir, og nú dugar ekkert minna en ,,sjálfrennireiðar“, sem orðnar eru svo fullkomnar í nútímanum, að þær þurfa göng sem boruð eru í gegnum fjöll, til að þær komist vandræðalaust um landið.
Og það fer ámóta mikill tími í að deila um hvar skuli borað næst, eins og það tekur síðan að bora, þ.e.a.s. þegar menn eru búnir að koma sér saman um að stinga megi gat á þetta fjallið eða hitt.
Ritari gerði það sér til skemmtunar áður fyrr, að ferðast dálítið um landið með hinum gamla hætti, nema að farangur hverskonar var fluttur með bílum og ferðalangarnir nutu þess að sitja færleikana.
Varðandi jarðgangagerðina er rétt að það komi fram, að það getur tekið ámóta tíma að rífast um hvar þau skuli vera og það síðan tekur, að renna borunum í gegn um fjöllin.
Ekki veit ritar hvernig þessi mál ganga fyrir sig hjá örþjóðinni í Færeyjum, að hann veit að þeir eru duglegir við að bora göng fyrir bifreiðar sínar og að algengt er, að þau séu undir hafsbotni til að tengja eyjarnar saman.
Við eigum slík göng sem grafin voru undir Hvalfjörð og þau hafa gefist vel.
Vel getur verið að langt verði í næstu göng, hvort heldur sem þau eiga að stingast í gegnum fjöll eða undir hafsbotn.
Við munum líka að formaður Framsóknarflokksins tók því með opnum huga, að bræða göng milli lands og Vestmannaeyja með íslensku rafmagni, þegar bandarískur bjartsýnismaður bauðst til þess að gera það bæði fljótt og vel.
Ekkert hefur orðið úr þeim áformum enn sem komið er, en vel getur verið að hinn vel kyssti Trump II., sem tyllti sér á landi eitt augnablik á dögunum, hafi verið með samning um gjörninginn í í rassvasanum, hver veit?
Sé svo þá gerum við ráð fyrir að hin kossláta utanríkisráðfrú, sem tók á móti manninum, viti mögulega eitthvað um það.

Frétt af útboði ,,Fljótaganga“ var í Morgunblaðinu á dögunum. Ekki kom fram, að til stæði að bræða þau með rafmagni, enda ólíklegt að sú aðferð verði valin, sé tekið mið að hve vesæll Framsóknarflokkurinn er orðinn.
Lausnir af þessu tagi sem aðrar, verða víst ekki sóttar til þess sem eftir er af Framsókn, ekki í nútíð að minnsta kosti og þaðan af síður í fortíð, en hvort þeim tekst að smala saman sauðum sínum fyrir næstu þingkosningar veit enginn og ekki einu sinni þeir sem ,,framsóknar“ eru.

Færðu inn athugasemd