Ritari þessara pistla hefur um nokkurn tíma velt því fyrir sér hvers vegna umræða og samskipti manna og þjóða á milli sé sú sem hún er, a.m.k. á seinni tímum.

Af myndunum hér að ofan sjáum við að það er síður en svo að ekki sé hægt að mynda vináttu milli ólíkra tegunda, en þegar kemur að samskiptum manna á milli blasir annað við í mörgum tilfellum.
Við þekkjum átök milli manna á dansiböllum fyrri tíðar, þar sem svo virtist sem allt gengi út á að þenja sig og belgja til að ganga í augun á ,,hinu kyninu“.
Hvort það tókst, verður ekki dæmt um, en undarleg er aðferðin við að gera sig gildandi í augum ,,hins veikara kyns“, sem svo oftar en ekki reyndist síðan vera mun sterkara þegar á hólminn var komið.
Það eru ekki margir á fótum sem muna eftir seinni heimstyrjöldinni og þaðan af síður hinni fyrri, en halda mætti að svo sé komið að sumum sé ,,orðið mál“ á að efna til þeirrar þriðju.
Það þurfti kjarnorkuelda frá Bandaríkjunum til að slökkva þá seinni, að ógleymdri þeirri þrautseigju sem Rússar, Bretar og fleiri þjóðir sýndu.
Þjóðir stóðu saman um að kveða niður brjálæði nasismans en þó var það ekki svo, að samstaðan væri algjör og mannfallið varð ægilegt.
Nú eru aðrir tímar, önnur styrjaldarátök og önnur kynslóð við völd og flest bendir til að heimsbyggðin sé að fara fram af brúninni.
Það eru átök milli Rússa og Úkraína, Ísraela og Araba og grunnt á því góða milli Indverja og Pakistana og styrjaldarátök eru í Afríku.
Af álfunum er það Ástralía ein sem sleppur, enda hvíti maðurinn búinn að sölsa flest allt undir sig þar sem hann kærir sig um, telur sig þarfnast og krefst.
Hættulegustu átökin eru trúlega þau sem eru milli kjarnorkuvæddu landanna og annarra og þó t.d. Úkraína búi ekki yfir kjarnorkuvopnum, þá eru þar orkuver sem knúin eru kjarnorku.
Ástand samfélagsins er hörmulegt sem vonlegt er eftir margra ára stjórnleysi og ófrið við stórveldið í austri og við munum t.d. eftir hollenskri farþegaþotu sem skotin var niður í ,,austurhluta Úkraínu“ (eins og íslenska ríkisútvarpið komst að orði) – þann 17. júlí 2014.
Hvers vegna var varasamt að fljúga þar yfir á þessum tíma?
Jú svarið liggur í raun í augum uppi, því þá þegar og reyndar fyrr, voru menn frá vesturhluta Úkraínu farnir að herja á ,,landa“(?) sína, sem Rússar komu til hjálpar með því að senda þeim loftvarnarkerfi SS 200 minnir ritara að það sé kallað, sem alls ekki er víst að sé rétt en skiptir í raun, engu máli í þessu sambandi.
Varnarlið í Lughansk eða Donbas gripu til vopnsins og skutu meinta árásarþotu niður með þeim afleiðingum að allir sem í henni voru fórust, en hvers vegna farþegaflugvél var valin flugleið yfir átakasvæði hefur ekki verið upplýst en ef til vill treystu menn einfaldlega á, að farþegaþota yrði ekki talin vera árásarflugvél frá Úkraínu.
Það sem þarna gerðist verður aldrei bætt og sárin sem opnuðust munu gróa seint en málið er enn eitt dæmið um að það eru ekki þeir sem herja á aðra sem einir eru í hættu og það síst í heimi þar sem allir eru að fara til allra og um veröld alla.
Ritari flaug þarna yfir nokkru seinna í vél frá B.A. í reisu sem farin var til Indlands og við hugsuðum okkar og það hafa eflsust fleiri gert sem í vélunum voru.

Við breytum ekki því sem liðið er en getum notið þess að horfa á þessa fallegu mynd sem eitt sinn birtist í Morgunblaðinu á stóðréttadegi og þökkum fyrir að búa í tiltölulega friðsælu landi, þó blikur hafi verið á lofti vegna ótraustra stjórnmálamanna. Sem m.a. hafa daðrað við annan þeirra sem takast á um austurhluta Úkraínu en flæmt hafa úr landi rússneska sendiherrann og kallað heim þann íslenska frá Moskvu.
Fyrir nú utan að hafa skotið skjóli yfir heimsþekktar hlandmigur, sem ekki undu sér lengur í Rússlandi en eru værar og ljúfar í boði íslensku þjóðarinnar þ.e.a.s. ef þær eru þá hér enn.
Rússnesk hjón, sem landinu okkar voru kunnug og sem óskuðu eftir landvist voru hins vegar rekin snarlega úr landi en munu hafa fengið landvist í Ítalíu ef rétt er munað.
Hvort það var vegna góðrar kunnáttu hinna rússnesku hjóna í almennum mannasiðum, eða einfaldlega vegna hins alkunna rússahaturs sem finnst meðal sumra stjórnmálamanna, að þeim var vísað á brott frá landi okkar, verður ekki upplýst á þessum vettvangi, enda ekki á færi ritara að kryfja hjörtun og nýrun í þeim pólitíkusum sem þar áttu hlut að máli.

Færðu inn athugasemd