Silfur og spjall um keisarans skegg

Við gátum horft á viðræðuþátt á Rúv í gærkvöldi og óhætt er að segja að þátturinn var fyrir margra hluta sakir áhugaverður.

Mættir voru fulltrúar ríkisstjórnarinnar sem nú situr og einnig fulltrúar tveggja flokka stjórnarandstöðunnar, þ.e. formaður Sjálfstæðisflokksins og væntanlegur formaður Framsóknarflokksins, þ.e.a.s. ef allt fer svo sem viðkomandi vonar.

Þátturinn var fyrir margra hluta sakir áhugaverður og upplýsandi og t.d. kom fram í honum, að formaðurinn og formannsefnið höfðu miklar áhyggjur af stöðu álversins á Grundartanga, vegna bilunarinnar sem þar varð.

Við sem lítið vit höfum á pólitík en pínulítið inngrip í rekstur fyrirtækis af þessu tagi vitum að þegar bilun kemur upp í búnaði, þá er unnið að því að vinna bót á vandanum og ekki leitað aðstoðar pólitíkusa, heldur manna sem hafa þekkingu á þeim búnaði og tækni sem notuð er í starfseminni.

Þegar fyrirtæki lokar líkt og gerst hefur á Bakka v/Húsavík, þá er það alvarlegt mál og vegna þess hve alvarlegt það er, þá er ekki leitað til pólitíkusa til að leysa vandann, a.m.k. ekki íslenskra.

Allir vona að úr málunum leysist og staðan verði, að grundvöllur fyrir rekstrinum verði fundinn svo fyrirtækið geti hafið rekstur að nýju, þar er ekki um bilun í tækjabúnaði sem veldur, heldur vond staða á markaði og ríkisstjórnir laga ekki markaði til lengri tíma litið, þó Framsóknarflokkurinn sé ekki og hafi ekki verið líklegur til að vera sammála því.

Í álverinu er hins vegar staðan sú, að stjórnmálamenn geta ekkert lagað og engu breytt, nema þá til hins verra og því er best að þeir haldi sig til hlés á meðan unnið er að lausn vandans sem uppi er. Framsóknarmenn skilja það ekki og sumir Sjálfstæðismenn illa og við skulum vona, að ríkisstjórnarflokkarnir fari ekki að skipta sér af málinu nema að þess verði óskað af einhverjum ástæðum.

Nær allt getur bilað sem við mennirnir búum til og þegar það gerist, þá er best að láta fagfólkið um að leysa málin og að pólitíkusar haldi sig til hlés nema annars sé óskað.

Þetta virðist núverandi stjórnarandstaða ekki vita né skilja.

Stjórnmálamenn breyta ekki markaðsástandi, nema þá til hins verra og þaðan af síður eru þeir líklegir til að lagfæra bilanir í tæknibúnaði.

Þeir geta talað um málin eins og við þekkjum og þegar þeir gera það, ættu þeir að halda sig við þau mál sem þeir hafa þekkingu á, ef einhver eru.

Flokkarnir sem fengu réttmæta refsingu kjósenda í síðustu kosningum eru síst af öllum líklegir til þess að bæta úr og laga og ættu því að halda sig til hlés, leiða hugann að því hvers vega úrslit kosninganna urðu á þann veg sem varð, því það er í besta falli pínlegt að þeir belgi sig út og láti sem þeir viti ráð við hverjum vanda.

Færðu inn athugasemd