Við sjáum mynd af því sem kallað er Gaza og í fyrirsögn er sagt, að flóttamenn snúi aftur heim til Gaza, en að hverju er að hverfa?

Myndin er frá AFP en við sjáum hana í Morgunblaðinu og veltum því fyrir okkur hvað sé heim og að hverju sé heim að hverfa.

Það var ekki svo að Gaza hafi verið einhver sælureitur samkvæmt þeim fréttum sem af svæðinu bárust fyrir helför Ísraelshers og eftir helförina er þar fátt annað en rústir, auðn og úldnar líkamsleifar þeirra manna og dýra sem drepin voru í helförinni.

Eftirlifandi fólk leggur það samt á sig að fara til baka, væntanlega í trausti þess að Trump hafi snúið nægjanlega upp á hendur Netanyahu til þess að treysta megi því að friður muni vara um stund, vikur, mánuði, eða kannski ár? 

Það er engu heim að hverfa, nema rústum og rotnandi líkamsleifum manna og dýra og til þess er ætlast, að Hamaz- liðum takist að finna út hvað sé hvers í þeim hræðilega graut sem um er að ræða.

Bandamönnum tókst að framkvæma nánast það sama í styrjöldinni við Þýskaland Hitlers í loftárásum á Dresden. 

Að sýna mátt sinn og megin er víst nauðsynlegt að gera þegar háð er styrjöld og þá er engu skeytt um hverjir fyrir verða og það er svo sannarlega ekki ný saga. 

Við þekkjum það frá því sem hér var fyrr nefnt og fleiri atburðum í seinni heimsstyrjöldinni og í ýmsum styrjöldum síðan þá, í Evrópu, Miðausturlöndum (Írak), þar sem Ísland var í flokki ,,hinna viljugu þjóða“, þeim til ævarandi skammar sem komu því svo fyrir. 

Víetnam stríðinu gleyma þau ekki sem fylgdust með óðum ráðamönnum Bandaríkjanna ráða þar för og þeir hafa svo sannarlega verið víðar á ferð s.s. í suðaustur Evrópu, Afríku og S- Ameríku, en þeim þykir notalegt að hafa Kúbu til að geyma þá sem þeir koma sér ekki til drepa!

Þangað mun hafa átt að senda Julian Assange en því tókst að forða á síðustu stundu. 

Færðu inn athugasemd