Í The Guardian er sagt frá mótmælum gegn lögum sem Zelensky mun vera áhugasamur um, en þau eru talin líkleg til að veikja eftirlit með spillingu.
Zelensky mun vera forseti án þess að hafa verið kjörinn í hlutverkið eins og bent hefur verið á; er ekki stjórnmálamaður, í venjulegri merkingu þess orðs, en er hins vegar talsmaður þeirra sem halda um stjórnartaumana í ríkinu.
Þar liggur líklega hundurinn grafinn í þeirri kú og á þetta hefur verið bent af fjandvini hans Putin, sem var víst kosinn til embættisins en hvort það var samkvæmt góðum lýðræðisreglum verður ekki kveðið upp úr með í þessum pistli.
Það er nefnilega þannig með lýðræðið, að hægt er að teygja það og toga, eftir því sem hverjum þykir henta í það og það sinnið.
Er til dæmis lýðræði sem byggt er á auðræði, s.s. má sjá í Bandaríkjunum lýðræði?
Væri ekki nær að kalla það auðræði? Um það má deila.
Í mörgum löndum er kosið um forystumenn þjóða án þess að regluverkið fari eftir þeim reglum sem við köllum því fallega nafni ,,lýðræði“; nafni sem felur það í sér að það sé lýðurinn þ.e. almenningur sem ráði a.m.k. vali þeirra sem valdir eru til að fara með stjórn.
Auðræði og lýðræði er varla það sama, því þau sem komast til valda í krafti auðs síns eru tæpast þangað komin til að gæta hagsmuna heildarinnar.
Hægt er að fimbulfamba um það fallega hugtak lýðræði út í það óendanlega en svo vikið sé til upphafsins, þá er það tæpast lýðræði sem stendur að baki forseta Úkraínu, enda varla hægt að hugsa sér, að lýðræðislegar kosningar geti farið fram í landinu.
Og svo vikið sé að öðru landi þar sem barist er fyrir ,,hreinsunum“, þá er varla hægt að hugsa sér lýðræðislegar kosningar í Ísrael eins og málum er háttað þar núna.
Lönd sem eru í stríði eiga ekki gott með að halda kosningar, en að því sögðu þá er stríð Ísraela við Gaza af þeirri gerð að trúlega væri hægt að halda kosningar í Ísrael, væri vilji til.
Lýðræðislegar kosningar er sem sagt afar erfitt að hugsa sér í löndum sem eru í stríði en væri eins og áður sagði, trúlega hægt í Ísrael vegna þess að þar er ekki verið í stríði við þjóð, heldur miklu frekar, verið að reyna að útrýma þjóð sem ekki getur varið sig.

Færðu inn athugasemd