Sumir alþingismenn hafa fundið hjá sér þörf til að tala mikið en segja lítið, undanfarnar vikur og eins og flestir munu vita, er ástæðan fyrir talþörfinni sú, að til stendur að hækka gjöldin sem útgerðarfyrirtæki greiða fyrir afnotin af auðlindinni.
Um þetta hefur verið fjallað í miðlum að undanförnu og sýnist sitt hverjum en flestir eru sammála um að haldið sé uppi málþófi um málið, þófi sem engu skilar öðru en því, að þingmenn þurfa að verma stóla sína inn í sumarið.
,,Þjóð veit þá tveir vita“ segir í gömlu orðtaki og við vitum flest að mörg blómleg fyrirtæki hafa sprottið upp í sjávarútvegi og þrifist ágætlega.
Til eru dæmi um að reksturinn hafi gengið svo vel, að reynt hafi verið að dreifa þekkingunni yfir í aðra heimsálfu.
Útrás af því tagi hófst fyrir mörgum árum en lenti í klandri, eins og margir muna eftir.
Komið var á fót embætti, sem kallað var ,,Sérstakur saksóknari“, eða eitthvað í þá veru og hefur málið mallað árum saman hjá hinum sérstaka síðan.
Annað mál sem heldur vöku fyrir þingmönnum þessa dagana, vikurnar og líklega komandi mánuði er ,,orkumálin“.
Málaflokkur sá, hefur verið látinn liggja í láginni í fjölda ára m.a. vegna þess, að ríkisstjórnin sem var, gat ekki komið sér saman um annað en að sitja í ráðherrastólum, maka króka og t.d. að fljúga til Abu Dabi í nafni umhverfisins.
Nýting orkukosta og bygging virkjana, var ekki á þeirra ,,sviði“ ef svo má segja.
Ríkisstjórnin þar sem hver höndin var á móti annarri, hékk saman í um sjö ár en að þeim tíma liðnum, var boðað til kosninga og kosið nýtt þing með m.a. nýju fólki.
Sá meirihluti sem myndaðist í framhaldinu er við stjórn landsins núna og flokkurinn sem enga virkjun mátti sjá, er blessunarlega horfinn af þingi en ekki alveg af sviðinu, því eitthvað hefur hann verið að bylta sér að undanförnu.
Hvert við erum komin þegar ekki er hægt að þoka þjóðþrifamálum áfram vegna skrílsláta sem kölluð er ,,umræða“ á þjóðþinginu er ekki gott að segja, en svo er að sjá sem ekki sé annað eftir, en að boða til nýrra kosninga og sjá hvað út úr þeim kemur.
Vill þjóðin ,,veraldar vesöld“ fyrri tíðar, eða vill hún nýja vendi sem sópa betur?

Það er þó huggun í raunum þjóðar, að háskólar finnast nú nánast á hverri koppagrund og flestir sem vilja geta fundið sér þar sæti til að sitja í og útskrifast síðan að lokum með hina eftirsóttu ,,háskóla“- gráðu.

Færðu inn athugasemd