Við fylgjumst með í fréttum af stöðugum sprengjuárásum milli landa sem ekki liggja saman og það hlýtur að vera sérkennilegt fyrir löndin sem á milli þeirra eru, að fylgjast með skotflaugum fljúga yfir án þess að geta nokkuð að gert.
Lofthelgi er eitt af þeim fyrirbrigðum sem komið hefur verið upp og venjan er, að lofthelgi landa sé virt af öðrum löndum.

Svo er ekki í þeim löndunum sem milli Írans og Ísraels liggja og gera má ráð fyrir a.m.k. stjórnendur þeirra landa sem þar eru á milli, hafi áhyggjur af stöðu mála, því það er ekki gott að geta átt von á að fá skotflaugarnar niður á lönd sín, með tilheyrandi afleiðingum.
Þegar svona er komið, vonast venjulegt fólk eftir því, að reynt sé að bera klæði á vopnin og vel getur verið að einhverjir geri það en sé svo, þá fer það alla vega ekki hátt.
Við sjáum í flestum fjölmiðlum hvað um er að vera og t.d. má lesa í The Guardian um stöðuna eins og hún er núna (16/6/2025).
Það eru sannarlega ekki umburðarlynd hófsemdar og friðaröfl, sem stjórna þeim löndum sem í þessum óhugnanlegu ,,samskiptum“ eiga, þannig að það er alls ekki víst að um hægis fyrr en eftir langan tíma og eftir að mörg mannslíf verða glötuð, auk þess sem fjöldamörg mannvirki verða eyðilögð.
Það er sem vettvangur hinna ,,Sameinuðu þjóða“ sé í dvala svo fátt fréttist af viðbrögðum á þeim bæ.
Hvort þar ræður, að upphafsþjóð ófriðarins er örlítið útibú Bandaríkjanna verður ekki fullyrt hér en að læðist grunur um að svo sé og gera má ráð fyrir að hart hefði verið brugðist við ef einhver þjóð í nágrenni Ísraels hefði ráðist á Ísrael með viðlíka hætti.
Að mannkynið komist á það stig að menn virði aðra til jafns við sjálfa sig, er ekki líklegt að gerist í náinni framtíð og því er það, að við verðum víst að sætta okkur við að um áttatíu árum eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk, geti verið að sú næsta sé í uppsiglingu.

Færðu inn athugasemd