Er hlutlaust svæði lausnin?

Samkvæmt því sem fram kemur í rússneska miðlinum Russya Today, vinna Rússar nú að því að koma upp hlutlausu belti milli Úkraínu og Rússlands.

Rússar vitna þeir til þess að þetta hafi verið gert áður, s.s. á milli Norður og Suður Kóreu og víðar og við vitum að er ekki hin endanlega lausn, en samt skárri en engin.

Hugsum til þess að inni í þessum búningum eru menn á besta aldri sem skaðast geta á líkama og sál í þeirri ,,vinnu“ sem þeir eru nauðugir viljugir, að sinna.

Spurning er hvort ekki megi líta svo á að þetta hafi verið reynt áður á þessu svæði þó það hafi verið á talsvert annan hátt.

Donbas svæðið átti að vera hlutlaust en þó ekki, því þau áttu að vera svokölluð ,,sjálfstjórnarsvæði“, þ.e. svæði sem bæði Úkraína og Rússland myndu virða sem hlutlaus.

Það gekk ekki vel að fylgja því eftir að svo væri og oft brutust út bardagar milli íbúanna og manna frá Úkraínu sem fóru með ófriði, yfirgangi og þegar lengst gekk manndrápum á svæðinu.

Rússar reyndu að styðja sitt fólk og útveguðu þeim loftvarnarbúnað sömu gerðar og Tyrkir keyptu en varnarliðar á Donbas svæðinu urðu til þess að skjóta niður farþegaþotu (hollenska ef rétt er munað), sem sannaði að þeir kunnu ekki að fara með búnaðinn.

Þetta var mikið hörmungarmál sem von var og ef rétt er munað, reyndu menn sem best þeir gátu, að koma sér undan ábyrgð af verknaðinum.

Rússar leggja til og vinna nú að því að koma á hlutlausu belti á milli landanna samkvæmt því sem segir í R.T. í sömu grein og vitnað var til í upphafi

Hvort það verður lausnin er ekki gott að segja en vonandi fara menn að sjá til sólar í því ófriðar ástandi sem þarna hefur verið um áratuga skeið.

Á sama tíma og þessi frásögn er í RT er greint frá því í The Guardian að miklar loftárásir hafi verið gerðar af Rússum á Úkraínu og tekið er fram í fréttinni að það sé á sama tíma og verið sé að skiptast á stríðsföngum, en eins og við munum var samið um veruleg skipti á föngum á fundinum umtalaða í Tyrklandi.

Fangaskipti eru reyndar ekki ný af nálinni í þessum átökum en vera kann að þau hafi legið niðri eftir að Úkraínar skutu niður fangaflutningavél sem var að koma með stríðsfanga frá Rússlandi til Úkraínu.

Það er löngu kominn tími til að hætta þessu stríði, sem best af öllu væri að hefði aldrei byrjað, eins og á víst um öll stríð.

En það er víst ekki mikil von til þess að mannskepnan læri að hegða sér í samskiptum hver við aðra, hvort heldur um er að ræða samskipti á milli þjóða eða einstaklinga, því svo er að sjá sem reynslan kenni okkur að það er auðveldara að deila en að koma sér saman.

Færðu inn athugasemd