Minning um góðan vin.

Æviágrip fengið úr Morgunblaðinu þann 24.04.1025

Ómar Breiðfjörð fædd­ist í Reykja­vík 28. maí 1942 og ólst þar upp. Hann lést á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Mó­bergi á Sel­fossi 30. mars 2025.

For­eldr­ar hans voru Amal­ía Karolína Jóns­dótt­ir og John Har­vey Lapsley.

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona hans er Sig­ríður Jóna Kristjáns­dótt­ir (Sigga á Grund). Börn þeirra eru Kristján Björn, f. 1969, og Amal­ía Karolína Matt­hild­ur, f. 1970, sem og barna­börn þeirra og barna­barna­börn.

Ómar lauk námi í renn­ismíði hjá Héðni og síðar vél­stjórn­ar­námi við Sjó­manna­skóla Íslands. Hann starfaði sem vél­stjóri á ýms­um skip­um megnið af starfsævi sinni, bæði á frakt­skip­um og fiski­skip­um. Starfið leiddi hann víða um heim – til fjar­lægra hafna og ólíkra menn­ing­ar­heima – og má segja að hann hafi ferðast um nán­ast all­ar heims­álf­ur. Hann eignaðist þar marga góða vini og ótelj­andi minn­ing­ar.

Ómar var tals­verður ein­fari í eðli sínu, en þótti afar vænt um góð sam­skipti og hafði yndi af því að hitta vini og kunn­uga. Hann var hlýr og hjálp­fús og stóð öðrum nær þegar þörf var á.

Á yngri árum stundaði Ómar bæði knatt­spyrnu og hesta­mennsku og dvaldi oft hjá móður­bróður sín­um, Þor­steini Jóns­syni á Arn­ar­hóli í Eyr­ar­sveit á Snæ­fellsnesi, en þaðan átti hann marg­ar góðar minn­ing­ar.

Árið 1971 kvænt­ist Ómar lista­kon­unni Sig­ríði Jónu Kristjáns­dótt­ur, bet­ur þekktri sem Sigga á Grund. Sama ár fluttu þau að Grund og byggðu þar upp fal­legt heim­ili og bú.

Ómar átti marg­vís­leg áhuga­mál en hest­ar skipuðu þar stór­an sess. Hann hafði einnig mik­inn áhuga á sauðfjár­bú­skap og áttu þau Sigga traust­an og mynd­ar­leg­an bú­skap á Grund. Sér­stak­lega kær var hon­um skóg­rækt­in, og með fjöl­skyldu sinni ræktaði hann tals­verðan skóg.

Ómar var mik­ill dýra­vin­ur og bar óend­an­lega vænt­umþykju fyr­ir dýr­un­um á bæn­um. Fugl­ar heilluðu hann sér­stak­lega, og fylgd­ist hann dag­lega með söng þeirra.

Ómar hafði ævi­lang­an áhuga á bók­um og fróðleik af öll­um toga. Hann kom sér upp vönduðu bóka­safni sem spannaði marg­vís­leg efni og var hon­um það mik­ils virði. Hon­um þótti ein­stak­lega gam­an að fylgj­ast með nýj­ung­um og tækni­fram­förum og hélt ætíð vits­mun­um og for­vitni vak­andi.

Á síðustu árum glímdi Ómar við veik­indi af hörku og seiglu, en hélt ætíð í lífs­gleðina með já­kvæðu viðmóti og ein­lægri nær­veru. Hann átti sinn stað í heim­in­um og fann gleði í litl­um hlut­um, hvort sem það var fugla­söng­ur, fjöl­skyld­u­stund eða ný bók til að lesa, en hélt alltaf í von­ina og alltaf kom hann til baka og reyndi að njóta þeirra daga sem hon­um voru skaffaðir. Þessa sein­ustu mánuði dvaldi hann á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Mó­bergi.

Útför fór fram 11. apríl 2025.

Ómar Breiðfjörð – minning

Þann 11. apríl síðastliðinn var Ómar Breiðfjörð borinn til grafar eftir að hafa barist við erfið veikindi.

Hugurinn leitar til þess tíma þegar lífið lék við hann  og margs er að minnast.

Ómar og  Sigríður Kristjánsdóttir felldu saman hugi og komu sér fyrir á Grund í  Vinningaholtshreppi, þar sem þau byggðu upp og komu sér fyrir og eignuðust börn, Kristján Björn og Matthildi.

Leiðir okkar lágu saman á ýmsan hátt  og til dæmis, störfuðum við Ómar saman á flutningaskipi Sambands íslenskra samvinnufélaga um talsverðan tíma, þar sem við vorum vélstjórar.

Það var ánægjulegur tími og hópurinn var samhentur. Vélstjórarnir voru fjórir auk aðstoðarmanns og  siglt var að mestu til Bandaríkjanna með frystar fiskafurðir en heim með  vörur sem þurfti að flytja til Íslands.

Við höfðum báðir gaman af hestum og fórum á þeim m.a. á hestamannamót sem var haldið á Murneyrum, svæði sem hestamannafélagið Sleipnir hafði til afnota til mótshalda, auk þess sem við höfðum hestana okkar saman um tíma í hesthúsi sem var á Vatnsenda.

Við vorum tengdir eins og áður sagði og ekki verður rakið í einni  minningargrein allt sem á milli okkar fór né allt það sem gert var saman, bæði til sjós og í landi en margs er að  minnast.

Við fórum á hestamannamót eins og fyrr sagði og eitt sinn kom Ómar akandi á eitt slíkt sem haldið var á Vindheimamelum en þangað hafði ég farið ríðandi með hópi fólks.

Á kveðjustund er gott góðs að minnast og vináttu sem entist alla tíð.

Ómar er nú farinn þangað sem við þurfum öll á endanum að fara og hver veit nema að við hittumst þar aftur.

Vináttan sem var á milli okkar entist þangað til yfir lauk og gott verður eflaust að hitta hann í ,,Sumarlandinu“.

Ómar var búinn að glíma við alvarleg veikindi um nokkurt skeið áður en hann lést en bar sig vel, fylgdist með því sem var að gerast í íslensku samfélagi og hafði á því sínar skoðanir.

Stundirnar með honum við sjúkrabeðið eru minnisstæðar og hann tók því sem að höndum bar af sannri karlmennsku.

Hugurinn leitar til Sigríðar, Kristjáns og Matthildar og barnabarnanna og þeim færum við hjónin innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minningin um góðan vin.

Ingimundur Bergmann Garðarsson

Færðu inn athugasemd