Ekkert rætt og ekkert birt, enda ekkert til að ræða né birta!

„Það var aldrei verið að leyna nokkrum sköpuðum hlut“ segir Guðlaugur Þór og þá þarf ekki frekar vitnanna við, eða hvað? Það er fréttaskýringarþátturinn Kveikur sem greinir frá þessu og í lok umfjöllunarinnar segir utanríkisráðherrann, að Rússarnir séu ekki hættir.

Hverju þeir eru ekki hættir, kemur ekki fram en við gerum ráð fyrir að það sé, að gæta landsins síns, sem er ekkert smáræðis verkefni, eins og við getum séð með því að skoða hnattlíkanið.

Klippa úr Kveik

Fram kemur í þættinum að nýjasta viðbótin við ,,varnarsamninginn“ var hvorki rædd né birt og trúlega finnst þeim, þ.e. Bandaríkjamönnum, að ekkert þurfi að ræða né birta svo sem sjá má hér að neðan á mynd af texta úr Kveik:

Bandaríkin hafa sem sé hlutina eins og þau vilja… þegar þau vilja.

Klippan er úr Kveik

Hvort hinn nýi utanríkisráðherra verður eitthvað öðru vísi en þeir fyrri hvað leyndarhyggju varðar, mun tíminn leiða í ljós.

Hvað sem öllu þessu líður er Ísland eyja í N- Atlantshafi með fáa íbúa og þjóðin sem á henni býr, er á engan hátt fær um að verja sig sjálf.

Klippa úr Kveik:

Fram til þessa höfum við treyst á, að í gildi væri varnarsamningur við Bandaríkin og í það heila tekið hafa samskiptin verið góð við það ríkjasamband og þau litlu samskipti sem ritari hefur haft við bandaríska hermenn voru ánægjuleg.

Það var á tímum Vietnam stríðsins og sem vonlegt var, vildu piltarnir sem allra minnst tjá sig um þau mál en voru kurteisir og háttvísir.

Í þætti Ríkissjónvarpsins kom fram að varnarsamningurinn margrómaði, er sýndarplagg sem lítið er á byggjandi.

Er og hefur alla tíð verið og þegar sótt var að íslenskri þjóð með yfirgangi og frekju, þá var það gert af bandalagsþjóð.

Það kom í hlut Rússa (Sovétríkjanna) að koma til hjálpar þegar það var og þeir gerðu það á viðskiptalegum grundvelli.

Varnarsamningur við Bandaríkin er að því er virðist hvorki fugl né fiskur og að litlu hafandi, þ.e.a.s. þegar Bandaríkjamönnum sýnist svo.

Tíminn mun leiða í ljós hvort það er rétt metið og vonandi er það ekki svo.

Færðu inn athugasemd