Viðskipti og tollar

Það er kunnara en frá þurfi að segja að forseti Bandaríkjanna er áhugamaður um tolla. Nú eru aðgerðir hans komnar í ljós og tollar á innflutta bíla til Bandaríkjanna hafa verið hækkaðir í 25%.

Frá þessu er sagt í flestum ef ekki öllum miðlum og við rekumst á grein í CNN þar sem farið er yfir hvernig hækkunin muni koma fram á innfluttum bílum.

Við sem eldri erum munum eftir hrifningu okkar – a.m.k. sumra – af bandarískum bílum, sem oftast voru stórir flekar sem gott var að sitja í en verra að eiga.

Bilanatíðni var há og hönnunin almennt ekki góð m.v. það sem við þekkjum í dag og svo fór að ritari læknaðist endanlega af áhuga á bandarískum bílum; sneri sér annað og prófaði t.d. breska bíla og hefur síðan verið sem bólusettur gagnvart þeim.

Rússneski jeppinn sem afi hans átti og hafði keypt nýjan reyndist afar vel.

Litið var til Japans og tveir bílar þaðan komust í eigu undirritaðs og síðan var fallið fyrir bandarískum Oldsmobile Delta Royale með díslilvél, sem reyndist hörmulega og stóðst engar væntingar; ekki á Íslandi né annarsstaðar.

Þar kom að leiðin lá í Bílabúð Benna og keyptur var bíll og síðan annar frá Kóreu og einnig frá Þýskalandi og það var þá sem opnaðist nýr heimur í bílamálum ritara.

Bílarnir virkuðu, voru vel hannaðir og skiluðu sínu, fyrir nú utan það að þjónustan var og er enn til fyrirmyndar.

Það fór svo að keypt var þýsk rennireið af sama umboðsaðila eins og fyrr sagði, fyrir nokkrum árum og það stendur ekki til að skipta henni út fyrir eitthvað annað á næstunni!

Færðu inn athugasemd