Grein er eftir þá Hákon Skúlason og Skúla Jóhannesson í Morgunblaðinu þann 18. febrúar 2025 undir yfirskriftinni Hvammsvirkjun og laxinn í Þjórsá.

Í geininnni rekja þeir félagar sögu virkjana í ánni og lýsa því sem hefur verið gert til að tryggja göngur laxa.
Skemmst er frá því að segja að það er hreint ekki lítið og í langflestu vel lukkað hvað það varðar að tryggja göngu laxa upp eftir ánni.
Greinina er hægt að nálgast í blaðinu og á vef þess t.d. með tenglinum í inngangi þessara skrifa.
Það er svo komið, að erfitt virðist að ná því að fá heimildir til að byggja virkjanir vegna andstöðu fólks, sem telur sig vita öðrum betur hvernig verja skuli náttúruna.
Aðrir telja að tryggja verði öflun orku til framtíðar til að fyrirtæki og allur almenningur geti þrifist og dafnað í landinu okkar.
Nútímasamfélag kemst ekki með góðu móti af án raforku og óhætt mun að slá því föstu, að afar fáir vilji hverfa til þeirra tíma sem áður voru, þegar búið var í torfhúsum og þau lýst upp með tólgarkertum en sem betur fer, eru litlar líkur til að við hverfum til þess tíma.
Þó þarf að hafa varann á, því svo virðist sem öflin, sem vilja ,,vernda náttúruna“ séu stöðugt að eflast og að einsýni sé kjörorðið á þeim bæ.
Við ættum að geta sameinast um að nýta með skynsamlegum hætti, þá kosti sem í boði eru til öflunar ,,hreinnar“ orku.
Orku sem við erum svo heppin að geta gengið að og virkjað.
Það eru alls ekki allar þjóðir sem eru svo heppnar að geta það og við ættum að vera þakklát fyrir að vera í hópi þeirra sem búa svo vel, að geta virkjað vatnsföll og framleitt hreina orku til nota í nær öllu sem við gerum.
Sameinumst um það og hættum að deila um keisarans skegg og teljum okkur ekki trú um að allt sé best eins og það er og að engu megi breyta.
Við vitum það að landið okkar hefur sífellt verið að breytast, stundum til hins betra en líka til hins verra.
Og það gerist þó mannshöndin sé þar hvergi að verki.

Færðu inn athugasemd