Við þurfum að vera á varðbergi í umgengni við villta náttúru og umgangast hana með gætni og virðingu.
Á Rúv.is var rætt við alifuglabónda vegna fuglaflensunnar sem herjar á villta fugla og sem greindist því miður á kalkúnabúi fyrir nokkrum vikum.
Fréttin eins og hún er á síðu Ríkisútvarpsins.
Yrði mikið áfall ef smit greindist
Það sem af er þessum mánuði hefur Matvælastofnun fengið yfir tuttugu tilkynningar á dag um veika eða dauða fugla, vegna fuglainflúensunnar. Alifuglabóndi segir að fuglaflensusmit á bænum yrði mikið áfall.
Það yrði mikið áfall ef fuglaflensusmit kæmi upp á bænum, segir alifuglabóndi. Miklar smitvarnir eru á fuglabúum. Matvælastofnun fær yfir tuttugu tilkynningar um dauða og veika fugla á dag.
Frá 6. janúar hefur MAST fengið 230 tilkynningar um dauða eða veika fugla. Þær koma flestar af höfuðborgarsvæðinu, oftast er tilkynnt um grágæsir og álftir, en einnig hafa borist tilkynningar um máva og spörfugla. Þess ber að gæta að fjöldi tilkynninga gefur ekki rétta mynd af fjölda smitaðra fugla, því stundum berast fleiri en ein tilkynning um sama fuglinn. Fuglainflúensan greindist á kalkúnabúi í Ölfusi í desember.
Á vefsíðu MAST eru greinargóðar upplýsingar um fuglainflúensu og hvað gera á finni fólk veikan eða dauðan fugl.
Enginn 100% öruggur
Miklar smitvarnir eru viðhafðar á alifuglabúum um allt land, meðal annars á kjúklingabúinu Vor á Vatnsenda í Flóahreppi. Ingvar Guðni Ingimundarson, alifuglabóndi þar segir að allnokkrar áhyggjur séu innan starfsgreinarinnar. Þetta hafi þó ekki haft áhrif á starfsemina á Vori. „Það er enginn 100% öruggur, held ég,“ segir hann.
Ingvar segir að kæmi upp smit í alifuglarækt myndi MAST ákveða með aðgerðir. Spurður hvort viðkomandi bú bæri kostnað af því telur hann að ekki yrði um allan kostnað að ræða. „Ég held ekki. En örugglega einhvern.“ Þannig að þetta gæti verið gríðarleg skerðing fyrir viðkomandi framleiðanda? Að lenda í svona? „Já, það yrði ábyggilega mikið áfall. Það þarf ekki að spyrja að því.“

Færðu inn athugasemd