Það er orðið nokkuð langt síðan ritari hefur skoðað fréttir af átökunum í Úkraínu en við yfirferð miðla morgunsins gerist það, sem svo oft áður, að frétt á CNN.COM minnir á að enn er barist um Donbas svæðið.

Myndin er úr grein CNN.COM.
Í fréttinni segir m.a. frá því að tregt sé orðið um gas vegna brostinna dreifiikerfa, sem vekur upp minningar af því hve fegnir Úkraínar urðu þegar gaslagnir frá Rússlandi til vestur Evrópu fluttu gas um Úkraínu.
Leiðslurnar veittu fólki sem bjó við lélega innviði möguleika á að ná sér í gas fyrir lítið með því að bora göt á lagnirnar.
Af þessu fóru sögur fyrir nokkrum árum en nú streymir gas ekki lengur frá Rússlandi með þessum hætti, heldur fer það til Kína í meira magni en áður eftir að Nord-Stream lagnirnar voru eyðilagðar af huldumönnum.
Grunaðir um skemmdarverkin eru allt frá Bandaríkjunum og til Úkraínu en hver gerði, er alls ekki fyllilega vitað, nema náttúrulega af þeim sem að verknaðinum stóðu.
Nú er svo komið að það vantar flest í Úkraínu, nema náttúrulega vestræn vopn sem streyma þangað og m.a. fjármögnuð af Íslandi hinu friðsæla.
Það þarf ekki að segja það neinum að stríð séu hættuleg. Þau eru hættuleg þeim sem stríða og þau eru hættuleg nágrönnum þeirra sem í stríði eru og í þessu tilfelli er stríðið hætttulegt heiminum öllum.
Rússland er öflugt kjarnorkuveldi og það hefur verið hjalað og gælt við í orðum, um beitingu þeirrar gerðar af vopnum.
Verði það gert mun það bitna á heimsbyggðinni allri og valda ómældum hörmungum.
Við munum eftir árásunum á borgirnar tvær í Japan undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar og enginn vill að þær hörmungar endurtaki sig og enn síður, að það gerist í margföldu magni m.v. það sem gerðist í Japan.
Þá var staðan þannig að Bandaríkjamenn sáu enga aðra leið til að stöðva Kyrrahafsstyrjöldina aðra en að beita þessari gerð vopna, sem þá voru á frumstigi.
Þó ekki sé nema af þessum ástæðum, þurfa einhverjir að stíga fram og koma á friði í stað þess að ala á ófriði, því það er sama hvaða skoðun við höfum á upphafi og orsökum atakanna, að styrjöldin má ekki magnast.
Aðeins það, að Ukraínum tækist það sem þeir hafa verið að reyna, þ.e. að sprengja t.d. kjarnorkuverið í Zaproritsya, gæti valdið nýju Chernobyl- slysi.
Eftirlitsmenn frá Sameinuðu þjóðunum sáu hvernig reynt hafði verið að sprengja steinsteypuhjúpinn á verinu og ef það hefði tekist, er ekki gott að segja til um hve víðtækar afleiðingar hefðu orðið.
Það þarf að koma á friði milli ríkjanna en ekki egna til meiri ófriðar, vega og meta af yfirvegun það sem er að gerast en ekki flumbrast áfram með þeim hætti sem íslensk stjórnvöld hafa leyft sér að gera.
Það er betra að bera klæði á vopnin, en að fletta þau klæðum!

Færðu inn athugasemd