Það er ekki að undra þótt menn undrist og rífi í hár sér þegar staðan er sem hún er núna í íslenskri pólitík…, og þó!

Við höfum verið með konur í ýmsum æðstu embættum þjóðarinnar, eða allt frá forseta, forsætisráðherra og reyndar í nær öllum störfum sem bjóðast.
Ekkert bendir til að þær geti ekki eins vel hugsað um hag þjóðar rétt eins og karlar, nema að síður sé.
Hér verður ekki reynt að telja upp afglöp karla, hvorki í trúnaðarstörfum né í öðrum, til þess yrði listinn alltof langur og nær útilokað að hann næði, að verða tæmandi.
Það eina sem hefur valdið því að þær hafa ekki verið eins mikið ,,út á við” og á vinnumarkaðinum er að þær voru frá fornu fari bundnar við að ,,gæta bús og barna” og þó það sé ekki mjög áberandi starfi, þá krefst hann mikillar ábyrgðar.
Við vitum ekki hvers kyns aparnir á myndinni hér að ofan eru en vitum það eitt, að þeir eru að hlúa hvor að öðrum. Það er ábyrgðarstarf að tína lýs, fyrir nú utan það að gera má ráð fyrir að þeir nýti þær sem finnast til átu!

Á myndinni sjáum við konurnar þrjár sem eru að glíma við það að koma saman ríkisstjórn í stað þeirrar sem sprakk á limminu sællar minningar.
Engin ástæða er til að ætla að þær eigi ekki eftir að standa sig betur en stjórnin sem lagði niður rófuna og yfirgaf sviðið þegar vinstri- græn fóru í fýlu.
Það er þjóðin sem fékk síðasta orðið þegar gengið var til kosninga, því við erum svo heppin að búa í lýðræðisríki og ekki síður, erum við heppin að kunna með það að fara, að búa í einu slíku… oftast.
Fögnum því og tökum fagnandi þeim sem vilja fórna sér í að taka við búinu – sem komið er í ljós að var ekki eins gott og látið var í veðri vaka og styðjum þær og félaga þeirra til allra góðra verka
Gagnrýnum þegar þarf en höfum hægt um okkur þegar ekki er þörf fyrir að andmæla!
Og mikið væri nú gott ef stjórnarandstaðan tilvonandi myndi veita málefnalegt aðhald og styðja nýja ríkisstjórn til góðra verka á meðan hún er að taka til eftir sjö ára sukk.
Það er nefnilega ekki endalaust hægt að moka úr tómri tunnu og samkvæmt fréttum er orðið ljóst að farið er að sjást til botns, hvað varðar fjármál ríkisins og þar með þjóðarinnar.

Færðu inn athugasemd