Við höfum flest tekið eftir því, að ríkisstjórnin sem nú situr, er sem afgangurinn af því sem áður var.
Í Morgunblaðinu þann 15/11/2024 má sjá hvernig staðan er en þar er greint frá störfum Alþingis á síðustu dögum þess fyrir kosningar.
Það er verið að berjast við að afgreiða fjárlög og ýmislegt athyglisvert kemur í ljós.
Á forsíðu blaðsins sáum við bregða fyrir orðinu ,,martröð” og ætla má að það sama megi segja um það sem er að gerast á síðustu dögum starfandi þingis.

„Þetta er mjög bagalegt,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, um þá niðurstöðu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, að frumvarpið um kílómetragjald komi ekki til með að verða að lögum fyrir áramót en hann telur breytinguna ,,óumflýjanlega og til góða fyrir allan almenning í landinu“.
Og í stað kílómetragjaldsins á að hækka álögur á bensín og dísilbílaeigendur:
,,Sigurður Ingi segir að í þessari frestun felist líka áskorun um að stoppa í gat sem til verður og kalli á hækkanir frá og með næstu áramótum, meðal annars á bensín- og dísilgjöldum sem hefðu ellegar lækkað um 80 til 90 krónur frá dælu 1. janúar þegar gjöldin áttu að falla niður og kílómetragjaldið að koma í staðinn.“
Sigurður segir að það dugi ekki og að:
„Það þarf [þurfi] að grípa til fleiri aðgerða eins og frekara aðhalds og lækkunar á öðrum framlögum. Það tekur ekki átakanlega í en var ekki meiningin. Þessi breyting hefði komið meginþorra almennings til góða, ekki síst þeim sem eru tekjulægri og þeim sem búa úti á landi svo dæmi séu tekin…
,,Fresta framkvæmd um við Landspítala” er yfirskrift annarrar fréttar og það er sannarlega fleira en það sem þarf að fresta við afgreiðslu fjárlaga og hér eru nokkur dæmi:
Landsspítalinn: -2,5 milljarðar, kílómetragjaldi á ökutæki á að fresta til að lækka tekjur ríkissjóðs um tæpa sjö milljarða og það þó til standi að leggja aukna skatta á bensín og dísilbíla upp á 2,5%.
Hækka á ,,kolefnisgjald”, þannig að það skili í ríkissjóð tæpum sjö millörðum og ef rétt er skilið, á að ná því með hækkun um tæpa 4 milljarða til viðbótar við það gjald sem fyrir er.
En það á líka að deila út fjármunum og til dæmis fær Kvikmyndasjóður aukningu og Landhelgisgæslan líka. .
Við lesturinn sjáum við blasa við, að það var löngu orðið tímabært að ríkisstjórnin færi frá og að nýir vendir kæmu til sögunnar.
Ríkisstjórn sem hangir saman á því einu að vilja sitja í ráðherrastólum hefði fyrir löngu átt að vera búin að taka pokann sinn.
Þjóð veit þá þrír vita, er stundum sagt og þessir ,,þrír” hafa vitað það lengi að ríkisstjórnin ósamhenta hefur setið við völd til þess eins: að sitja við völd.
Þau gátu ekki komið sé saman um hvalveiðar sem frægt er orðið og þó það sé ekki sannað, þá er því haldið fram af sumum í sjávarútveginum að það sé ein af ástæðum þess að loðnan lætur ekki sjá sig.
Það er gott þegar menn sjá að sér og yfirgefa vettvanginn sem þeir hafa starfað á og bjóða öðrum að taka við, þ.e.a.s. ef kjósendur vilja.
Hvort kjósendur vilja láta reyna á að nýir vendir sópi betur, kemur síðan í ljós þegar talið verður upp úr kjörkössunum.

Færðu inn athugasemd