Í aðsendri grein í Morgunblaðinu þann 16.10.2024, sem rituð er af Hildi Þórðardóttur, er fullyrt að íslenskir ráðamenn hafi gerst sekir um landráð.

Í grein sinni segir Hildur m.a.:
,,Vopnakaup íslenskra ráðamanna brjóta gegn Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, landráðakafla Almennra hegningarlaga og Varnarmálalögum.“
Og áfram:
,,Vopnakaup Alþingis og þátttaka í stríði úti í heimi stangast á við Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, Varnarmálalög nr. 34/2008 og landráðakafla Almennu hegningarlaganna nr. 19/1940 og brjóta beinlínis gegn þeim.
Í Stjórnarskránni er kveðið á um að Ísland sé lýðveldi með þrískiptingu valdsins. Engum er heimilt að viðhafa ráðstafanir sem ganga gegn því. Í 21. gr. segir að ráðamenn „megi ekki gera samninga ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins“. Með þessum vopnakaupum og hernaðarafskiptum eru ráðamenn að setja íþyngjandi kvaðir á samfélagið og breytingar á stjórnarhögum. Ekki aðeins kvaðir fyrir síðustu fjögur ár, heldur hafa þeir lofað framlögum langt fram í tímann og þar með látið undan þrýstingi erlendra afla sem vilja veikja stjórn landsins og ná yfirráðum hér. Þetta eru hrein og klár landráð.„
Síðan bendir höfundur á hættuna sem okkur geti stafað af þessum ákvörðunum íslenskra ráðamanna:
,,Með því að taka beinan þátt í stríði hafa ráðamenn sett okkur á lista yfir óvini Rússlands. Rússland er kjarnorkuveldi og hefur forseti þess, Vladimír Pútín, ítrekað hótað að beita kjarnorkuvopnum ef Vesturlönd halda stríðsrekstrinum áfram í Úkraínu. Ísland liggur varnarlaust í Norðurhafi, fámennt og afskekkt og því tilvalið skotmark til að sýna Vesturlöndum að honum sé alvara.
Með þessum gjörðum hafa utanríkisráðherra og ríkisstjórnin öll brotið gegn landráðakafla almennu hegningarlaganna þar sem segir: „Geri maður samband við stjórn erlends ríkis til þess að stofna til fjandsamlegra tiltækja eða ófriðar við íslenska ríkið eða bandamenn þess, … þá varðar það fangelsi ekki skemur en 2 ár eða ævilangt.“
Þegar hér er komið víkur höfundur síðan að flumbrugangi utanríkisráðherrans sem þá var og segir:
,,Ekki nóg með það heldur sleit utanríkisráðherra öllu sambandi við Rússland með því að vísa rússneska sendiherranum úr landi og kalla heim okkar eigin [sendiherra] frá Rússlandi. Í áratugi áttum við Íslendingar farsælt og gjöfult viðskiptasamband við Rússland sem utanríkisráðherra eyðilagði með gjörðum sínum svo stór fyrirtæki fóru á hausinn. Eru þetta mestu ráðherraglöp í sögu þjóðarinnar og landráð.
Samkvæmt 88. gr. sömu laga því þar segir að hver „sem opinberlega í ræðu eða riti mælir með því eða stuðlar að því, að erlent ríki byrji á fjandsamlegum tiltækjum við íslenska ríkið … skal sæta … fangelsi allt að 6 árum“.
Í 91. gr. hegningarlaganna segir: „Sömu refsingu skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri.“
Þá bendir höfundur á að ,,íslenskir ráðamenn“ beri ekki hag þjóðar sinnar fyrir brjóst með þessu ráðslagi, þ.e. vopnakaupum handa erlendri þjóð fyrir ,,16 milljarða“ sem íslenska þjóðin hafi ekki átt handbæra og hafi því þurft að taka þá að láni hjá erlendum bönkum!
Og segir síðan:
,,Atlantshafsbandalagið er varnarbandalag og í samningnum er hvergi minnst á að aðildarríki þurfi að reiða af hendi fjármagn til vopnakaupa. Við höfum verið aðilar að samningum í 70 ár án þess að þurfa að reiða fram krónu til vopnakaupa.“
Og að:
,,…hvorki Úkraína né Rússland [séu] aðilar að Atlantshafsbandalaginu og því ber okkur engin skylda að skipta okkur af þessu stríði.“
Hildur segir að það sé eingöngu vegna þrýstings frá NATO o.fl. sem íslenskir ráðamenn gangi svona fram, eða eins og það er orðað í grein hennar:
Afskipti okkar eru einungis vegna þrýstings frá aðilum innan NATO og hernaðararmi Bandaríkjanna sem vilja knésetja Rússland og eignast auðlindir Úkraínu og eru reiðbúin að fórna úkraínsku þjóðinni í þeim tilgangi. Viljum við Íslendingar vera þátttakendur í slíkum landráðum?
Undir lok greinarinnar, sem nálgast má í flokknum Aðsent á mbl.is segir eftirfarandi:
Við höfum alltaf verið stolt af því að vera friðsöm, vopnlaus og herlaus þjóð. Leiðtogafundurinn árið 1986 var sönnun á stefnu landsins, að beita sér frekar í friðarumleitunum en að blanda sér í vopnuð átök.
Lokaorð greinarinnar sem hér hefur verið vitnað til eru:
Það er engin réttlæting fyrir þessum vopnakaupum og hernaðarbrölti, því ber þingmönnum stjórnskipuleg skylda að umrædd fyrirætlan verði tekin út úr fjárlagafrumvarpi ársins 2025.
Hér hefur aðeins verið bent á sumt af því sem kemur fram í grein Hildar Þórðardóttur og ekki verið kafað ofan í tilvísanir.

Færðu inn athugasemd