Þau tíðindi voru að gerast í íslenskri pólitík, að formaður Sjálfstæðisflokksins gafst upp og ákvað að komið væri nóg og að því væri rétt að boða til kosninga.
Langlundargeðið gangvart Vinstri grænum er þrotið hjá Sjálfstæðisflokknum en hvort svo er hjá Framsóknarflokknum er aðeins óljósara.

Við sjáum að köttur, sem bundinn er með hálsól, reynir sem hann getur til að átta sig á því sem er að gerast; horfir furðu lostinn yfir sviðið og er með spurn í svip.
Þannig er það og hefur verið um langan tíma að Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa verið líkt og í hálsól Vg.
Formaður Framsóknar hefur skynjað það og Bjarni er loksins búinn að átta sig á því og komast að þeirri niðurstöðu að þannig geti þetta ekki gengið lengur.
Vinstri græni formaðurinn segir ákvörðun Bjarna hafa komið sér á óvart og greining Framsóknar nær ekki lengra en það, að formaður hennar líkir hinni pólitísku uppákomu við það þegar handklæði er fleygt í gólfið.
Auðvitað er þetta orðagjálfur og hún veit það konan sem við sjáum lengst til vinstri á myndunum hér að ofan.
Abú Dabí stjórn hinna miklu vonbrigða og Þingvallarútuferða er sem sagt á leiðinni burt og gera má ráð fyrir að fáir munu sakna hennar.
Hún kom sá og sigraði ekki, heldur tapaði.
Tapaði tiltrú, hafi hún einhver verið í upphafi og tiltrúin fór ekki vaxandi með tímanum, heldur saxaðist sífellt á langlundargeð þeirra sem með fylgdust og svo fór að nær allir voru löngu búnir að fá nóg.
Forsetinn sem er nýkominn úr heimsókn til Danmerkur, fær nú það hlutverk að samþykkja afsögn forsætisráðherrans, ræða við formenn flokkanna og að því loknu, verður að öllum líkindum boðað til kosninga.
Við getum vart ímyndað okkur ástandið á stjórnarheimilinu eftir þessa uppákomu en vitum, að sannast mun að þeir njóta seint eldanna sem fyrstir kveikja þá og það hefðu vinstrigræningjarnir mátt hafa í huga, sé þeim það fært.
Jakkafata, byssu og bílakaupa ríkisstjórnin fundar ekki með einkavinum sínum á næstunni, nema þá á bakvið tjöldin en hvað leynist þeim að baki eftir kosningar mun koma í ljós.
Vonandi gengur talning atkvæða vel, bæði í Borgarnesi sem annarssstaðar og óskandi er, að þjóðin fái að kosningum loknum, ríkisstjórn sem starfar fyrir þjóðarhag í stað þess að binda sig við persónuleg áhugamál og hrifnæmi augnabliksins.

Færðu inn athugasemd