Hugsum fyrst og gerum svo og sýnum hvort öðru kærleik

Það er þungt yfir heimsmálunum þessa dagana, þjóðir berjast.

Við getum lært margt af dýrunum, svo sem sjá má af myndunum hér að ofan, en við virðumst ekki hafa vilja, getu, né löngun, til að sýna hvert öðru þann kærleika sem boðaður er við hátíðleg tækifæri.

Staðan er orðin talsvert tvísýn svo ekki sé meira sagt, þegar hvert kjarnorkuveldið af öðru er orðið aðili að hernaðarátökum.

Rússland er kjarnorkuveldi og sama er um Bandaríkin og fleiri NATO ríki, sem nú herja á það á þann hátt, að þau styðja Úkraínu skilyrðislaust eða skilyrðislítið og þar er Ísland sem viðhengi fyrir tilstuðlan tveggja kvenna og þeirra sem með þeim stíga dansinn.

Rússland og áður Sovétríkin, reyndust Íslandi vel þegar að því var þrengt af ,,vinaþjóðum“ og því hefði verið skynsamlegt að hugsa fyrst og gera svo, þegar valið stóð um stuðning við í Úkraínu.

Það var ekki gert og verður trúlega ekki gert úr þessu og líklega verður það tíminn og seinni tíma söguskoðun sem mun draga fram stöðu mála, eins og þau raunverulega voru þegar ákvarðanirnar voru teknar.

Tímans dómur dæmir, eins og við þekkjum og því er æskilegt að ekki sé flumbrast áfram í geðshræringarkasti þegar mikið liggur við og taka þar ákvarðanir af yfirvegun.

Það er vont að hlaupa á sig og að þegar það er gert, getur verið erfitt að snúa til baka!

Önnur mál banka á dyr heimsins þessa dagana, því logar ófriður geysar í Miðausturlöndum, þar sem a.m.k ein þeirra þjóða sem í ófiðnum standa býr yfir kjarnavopnum og sé tekið mið af framkomu Ísraela í styrjöldinni til þessa, þá er engin ástæða til að efast um, að til þeirra vopna verði gripið telji þeir þess þörf.

Hér verður ekki reynt að réttlæta aðfarir Palestínumanna þegar þeir réðust á og drápu fjölda manns á tónleikum ef rétt er munað og sem telja má undanfara þess sem nú er að gerast, en viðbrögðin er slík að það er langt úr hófi.

Auk þess má ekki gleyma því að þau eiga sér skýringu, sem er sú að ísraelar hafa stöðugt verið að sölsa undir sig meira land sem tekið er frá Palestínu og það heur ekki verið gert með friðsamlegum hætti

Dráp á saklausu fólki er aldrei hægt að réttlæta, en benda má á hvernig Ísrael varð til og hvernig það hefur stöðugt, síðan það var stofnað, þrengt meir og meir að þeim sem fyrir eru í landinu og hafa verið þar um aldir.

Fólkið sem í landinu bjó bar enga ábyrgð á því sem gerðist í seinni heimstyrjöldinni, en til friðþægingar var brugðið á það ráð, að úthluta gyðingum landi þar sem byggð var fyrir.

,,Mikil er mannúðin manna…“ stendur skrifað og mannúðin sem sýnd var gyðingum eftir heimstyrjöldina skýrist væntanlega af því áfalli sem menn urðu fyrir eftir að hryllingur nasismans var öllum sem vita vildu ljós.

,,Sárt bítur soltin lús“ segir íslenskt máltæki sem er nú að sanna gildi sitt enn einu sinni, svo sem sjá má af viðbrögðum palestínsku þjóðarinnar.

Þjóðar sem reynir að rísa gegn ofbeldinu þótt hún hafi engan mátt til að geta náð árangri gegn Ísrael, sem stutt er skilyrðislaust af herveldinu mikla sem nú stendur frammi fyrir vali um hver skuli verma forsetastól í hinu ,,Hvíta húsi“.

,,Hvít hús“ eru víða og við skulum vona að þau sem þar eru innan dyra, átti sig á alvöru málsins áður en enn ver fer en orðið er.

Afstaða Íslands sem mótuð var af konunum, sem hér voru nefndar til sögunnar í upphafi, hefur ekki verið skýr.

,,Við“ höfum tekið eindregna afstöðu með Úkraínu sem hefur við ofurefli að etja, en afstaðan til þess sem gengur á í Palestínu er óskýr.

Þar er ekki tekin afstaða með þeim sem við ofurefli fást, semtrúlega staafar af því að menn vilja ekki móðga hinn risastóra ,,bróður“ sem elur og nærir Ísrael í yfirgangi þess, nú sem fyrr.

Þar stendur þessa dagana yfir kosningabarátta um forsetaembætti og menn bíða spenntir eftir því að sjá hvað út úr þeim skrípaleik kemur og það er leitt að þurfa að vona að sá sem er í trúðshlutverkinu er sigri, vegna þess að þá geti frekar verið friðarvon.

Von um frið sem alls ekki er víst að sé rétt því illt er að treysta óstöðugum.

Þannig er staðan í pólitíkinni í Bandaríkjunum, að engin leið er að segja eitt eða neitt um það hvernig forsetaefnin, sem þarlendir hafa um að velja, muni reynast.

Við vonum það besta, að manndrápum ljúki og að menn fari að ræða sig til niðurstöðu í stað þess að flumbrast í ákvarðanatökum, líkt og íslenskar ráðherrur hafa gert.

Færðu inn athugasemd