
Svo sem sjá má, getum við öll verið vinir þó ólík séum.
Dýrin geta það og við getum það líka, ef við aðeins viljum en það er sem eitthvað sé í veginum.
Undirritaður er að lesa sér til skemmtunar og fróðleiks bókina ,Járnkarlinn“ og þar má sjá að menn geta verið vinir og unnið saman þó að stjórnmálaskoðanir séu ólíkar.
Gátu það að minnsta kosti á þeim tíma sem bókin greinir frá og það þó mikill ágreiningur væri um strauma og stefnur í pólitíkinnni.

Þegar litið er yfir fréttir liðinna daga og vikna sjáum við að sumt veldur áhyggjum, annað þarfnast breytinga, en það er líka sagt frá því að rafbílar seljist illa miðað við fyrra ár, auk þess að þeir brenna glatt ef marka má fréttir frá Svíþjóð.
Það er sagt mikið að gera hjá þeim sem stjórna vegna alls þessa og vitanlega líka alls annars, sem ekki hefur hér verið nefnt hér, en eitt er þó á góðri leið og það er að álverð fer hækkandi.
Að ógleymdu því að breyta þarf bifreiðahlunnindum vegna svokallaðra ,,hreinorkubíla“, sem spurning er hvort rísa fyllilega undir því nafni.
Lífið er vesen sagði lífsspekingur og ætli ekki megi segja að hann hafi haft á réttu að standa.

Álverðið fer hækkandi og til þess að við getum notið þess þarf að framleiða ál.
Það fer illa í suma eins og við munum og því bíðum við eftir hvelli frá einkavinum náttúrunnar, sem hafa fundið það út af visku sinni að hún sé best eins og hún er og því megi alls ekki nýta hana til eins né neins.
Peningarnir verða til í ríkissjóði eins og við eigum víst að vita, þó við gerum það ekki og því er nær víst, að mikil upprisa mun verða og það fyrr en seinna, ef farið verður í að virkja fallvötnin meira en orðið er, þó það sé þjóðinni til heilla!
Hvellurinn er ekki kominn en við bíðum eftir honum og við vitum að hann mun lýsa sér með mótmælastöðum, köllum og allskyns skarki og til að allt fari vel að lokum:
Verðum við að loka augum og eyrum fyrir þeim fyrirgangi öllum!

Við endum þetta svo á máli málanna þ.e.a.s. því, að búið er að liðka fyrir því, af sjálfu Alþingi þjóðarinnar, að fyrirtæki í slátrun og úrvinnslu þurfa ekki að sæta hefðbundnum reglum um samkeppni og samkeppnishömlur.
A.m.k. ef þau eru á norðanverðu landinu en hvort það gildir víðar vitum við ekki og alls ekki heldur, hvort aðrir en framsóknarmenn mega njóta gjörningsins.
Ef ekki, má gera ráð fyrir að látið verði reyna á svokallaða jafnræðisreglu!
Eða hvað sem hún nú heitir sú ágæta regla!
Við höfum séð ýmislegt gerast í svona málum eins og t.d. það að ungur og glöggur maður var fenginn til að bjarga fyritæki sem komið var í vandræði.
Hann leit yfir sviðið, ók um og skoðaði hvað mætti bæta og hverju mætti breyta og nýta betur; lagaði síðan til í rekstrinum og fyrirtækið fór að dafna og blómstrar í dag.
Önnur sem áður voru að reyna sig á sláturmarkaðinum á því svæði, hafa síðan horfið hægt og hljótt.
Sunnlenskir bændur hafa síðan slátrað sínu fé hjá félagi sem þeir treysta og sjá að er rekið af myndarskap og útsjónarsemi.
Svona ganga hlutirnir ekki fyrir sig fyrir norðan og því þurfti að fara aðra leið og ekki dugði til að kaupfélagið í Skagafirði sé eitt það glæsilegasta sem um getur.
Menn vildu ekki sameinast og hagræða, leggja niður og nýta betur og því fór sem fór.
Út af þessu er ys og þys sem stendur en það mun ganga yfir eins og annað.

Færðu inn athugasemd