
Það hefur verið frekar skrautlegt að fylgjast með kosningum og kosningabaráttu í Bandaríkjunum og Frakklandi síðustu daga og við sjáum á svip bjarnarins og húnsins að báðir eru ámóta hissa.
Og það er annar björn sem fylgist líka með, gerum við ráð fyrir og þó hann sé alvarlega upptekinn, þá reiknum við með að hann gefi sér tíma til að kíkja á vestrænar fréttir.
Makalaus er þessi Macron og bjáni er þessi Biden, gæti sá verið að hugsa og þó einhverir haldi að hann fagni úrræðaleysi, kjánagangi og almennu rugli, þá er það alls ekki víst.

Veifað út í loftið og hyldýpið blasir við.
Það er nefnilega auðveldara að eiga skoðanaskipti við þann sem er með fullu viti en hinn sem er það ekki.
Það gildir í heimi manna að minnsta kosti og þó sumir vilji ætla að dýrin skorti eitthvað upp á mannlega getu til hugsunar, þá er það nú svo, að varlegt er að fullyrða nokkuð um það hvernig þau meta hlutina.
Maginn þarf sitt hjá þeim eins og okkur og þau þurfa lífvænlegt umhverfi til að lifa í og þannig er það líka með okkur.
Forseti Bandaríkjanna gengur ekki á öllum – og ekki tveimur heldur, nema svona varla og tæplega það – og andstæðingur hans í pólitíkinni er slíkt ólíkindatól að reiknistokkurinn ræður ekki við hann og nútíma reiknivélin ekki heldur!
Evrópskum bændum er nóg boðið og hafa látið það í ljós með áberandi hætti; telja sig ekki geta framleitt matvæli nema að fyrir þau fáist peningar á matvælamarkaði þegar að því kemur.
Slík er nú heimtufrekjan!
Og til að allt sé það nú fullkomnað, þá er það forseti Ungverjalands sem tekur upp á því að heimsækja Úkraínu í þeim tilgangi að koma vitinu fyrir þarlenda ,,ráðamenn“.

Hvort hann hefur stokkið upp um háls Zelenskys til að hnusa úr hálsakoti eða blása í hann viti, er ekki vitað á þessari stundu en vel má vera að honum hafi orðið hugsað til ,,sýningarinnar“, sem haldin var í Reykjavík fyrir nokkrum tugum þúsunda mannslífa síðan.
Zelensky sagði þeim ungverska að hann þyrfti vopn og engar refjar og enginn efi er á, að til eru þeir og þær, sem vilja gefa manninum eitthvert dót til að leika sér með.
Ef til vill eru enn til einhverjar byssur frá Hörpusýningunni sem senda má austur, nema þær séu allar komnar í íslensku glatkistuna góðu, þar sem hlutirnir hverfa hratt og örugglega.
Í Bretlandi er síðan einn sem fer að sunnan og fer til … ja hvert?
Við vitum það ekki og hann veit það ekki heldur og þaðan af síður bræður hans og systur í Íhaldsflokknum.

Færðu inn athugasemd