Margt hefur verið sagt um kosningarnar sem voru haldnar í Frakklandi, sumt af því hefur eflaust verið rétt eins og gengur, stundum ratast mönnum… og svo framvegis. Í Heimildinni má lesa grein eftir Einar Má Jónsson um málið, sem þar er skýrt á dálítið annað hátt en við höfum séð, t.d. í hinu margrómaða ,,sjónvarpi allra landsmanna“.

Kom, sá og sigraði … ekki.
Yfirskriftin er ,,Við erum reið“ og strax í upphafi er sagt frá því sem margir hafa tekið eftir.
Að Macron reyndi að halda því fram að hann væri ,,rödd skynseminnar“, sem hann er vitanlega ekki og sem ætti nú að vera orðið hverjum manni ljóst.
Ekki frekar en maður nokkur sem bækslaðist frá bíói og yfir á hótel fyrir nokkrum árum eftir að hann hafði tapað kosningum í flokknum sínum.
Macron telur sig vera ,,rödd skynseminnar“, svona líkt og Biden kallinn sem ekki stendur undir slíkri fullyrðingu af eðlilegum ástæðum.
Elli kerling sveik Biden ekki þrátt fyrir langt spjall við hana og mótherjinn er svo makalaust fyrirbrigði að hér verður ekki minnst á hann frekar.
En hvers vegna kusu Frakkar eins og þeir gerðu og sem leiddi til niðurstöðu sem grátin er, m.a. af aðfengnum fréttaskýranda á Rúv?
Kom, sá og sigraði en hvað svo:

Yfir það er farið í grein Einars og við erum ekki dregin á svarinu, því strax í inngangi segir:
,,Þegar blaðamaður einn fór á stúfana til að komast að því hvers vegna kjósendur væru nú í stórum stíl farnir að halla sér að „Þjóðarfylkingu“ Marine Le Pen, fékk hann einfalt svar (með orðaleik á frummálinu): „On n´est pas facho, on est faché“, sem útleggst: „Við erum ekki fasistar, við erum reið“
Og hvers vegna eru menn reiðir?
,,[…]kjósendur eru upp til hópa reiðir yfir þeirri stjórnarstefnu sem Macron forseti hefur nú fylgt í sjö ár og af því sem af henni hefur hlotist. Og nú hefur annað bæst við til að gera menn enn reiðari og ringlaðri, það er sú furðulega ákvörðun Macrons að rjúfa þing og efna til nýrra kosninga strax í kjölfar Evrópukosninganna með stysta fyrirvara sem stjórnarskráin leyfir án þess að nokkuð knýði á um það.„
Það sem ritari veit um Frakka er að þeir eru ekki mikið fyrir það að láta spila með sig og hafa oft á liðnum tíma risið upp og losað sig við óæskilega stjórnendur.
Fyrir nú utan það, að þeir eru taldir hafa lagt sig fram um að hafa lagt sitt að mörkum til að kynbæta íslenska þjóð, sem kannski veitti ekki af þegar það var!
Stundum hefur þeim tekist að skipta út pólitíkusum svo vel hafi heppnast en stundum ekki eins og gengur.
það er ekki á vísan að róa í þessu mannlífi og sá sem lofar góðu stendur ekki alltaf við loforðin og þarf ekki að fara út fyrir íslenska landsteina til að finna dæmi um það.
Víst getur verið að það sem við tekur í Frakklandi sé lítt betra en það sem er að fara en Frakkar gera þó tilraun til að losa sig við brosmildan en lítilsmegnugan stjórnmálamann.
Að við gerum það í næstu kosningum er alls ekki víst og því er rétt að dæma varlega.
Kjánar og kjánaprik finnast víða og þarf ekki að líta út fyrir íslenska landsteina til að finna dæmi um það og vel getur verið að eitt slíkt hafi samið þennan pistil!
Við þetta lifum við og getum ekki annað, eins og sagt er, en það má alltaf reyna aftur og gott ráð er:
Að gefast aldrei upp á, að reyna að að breyta til hins betra.
(Myndir eru fengnar úr Heimildinni)

Færðu inn athugasemd