Það er búið að vera hart í ári hjá minkabændum að undanförnu en nú er sem staðan sé að batna og vonandi er það rétt.

Um er að ræða búgrein, sem getur þegar vel árar skilað gjaldeyristekjum í þjóðarbúið.
Hús og búnaður er til staðar en lægðin sem hefur verið að undanförnu, er búin að vera minkabændum erfið.
Það var Covit-19 faraldurinn sem setti strik í reikninginn en nú er að birta til og Kínverjar eru farnir að sækjast eftir skinnum að nýju og þá koma vonandi fleiri á eftir.
Frægt varð þegar Mette nokkur setti minkaræktina á hliðina í Danmörku, í æði sem var svo mikið að allir minkar voru drepnir og grafnir en bara ekki nógu djúpt og svo fór að þeir komu upp úr gröfum sínum og voru frekar ófrínilegir í upprisunni.
Við áttum enga Mette sem betur fer, nóg var og er nú samt og þannig er það í hinum frjálsu óríkireknu búgreinum að það fer eftir því hvernig kaupin gerast á eyrinni hvernig afkoman verður.
Sem betur fer eru þeir til sem lifað hafa hremmingarnar af, hafa getað látið aðrar búgreinar t.d. helda rekstrinum gangandi og geta því núna farið að sjá til sólar.

Á Vestfjörðum hafa menn verið að leita eftir heitu vatni af mikilli þrautseigju og nú standa vonir til að þolgæðin sé að skila árangri.
Við sem þekkjum það hvernig er að leita eftir orku náttúrunnar með þessum hætti, vitum hve ánægjulegt það er að finna það sem sóst er eftir og við skulum vona, að einkavinir náttúrunnar finni ekki hjá sér hvöt til að spilla fyrir nýtingu þeirrar orku sem finnst.
Þó þeir viti það ekki, þá vitum við hin að orka sem nýtt er með þessum hætti, er á engan hátt skaðleg fyrir umhverfið né móður jörð.
Sama má reyndar segja um kraftinn sem í rennandi vatni býr, að engan skaðar hvort hann er nýttur, svo ekki sé talað um rokið okkar sem vel mætti virkja og það eina sem undirrituðum getur dottið í hug að mæli geng því, er ef fuglar himinsins slysast til að fljúga í spaðana.
Að því þarf að gæta og ætti að vera vel gerlegt vegna þess að ekki er um að ræða nýja uppfinningu og muna má, að íslenskir bændur nýttu áður fyrr vindinn til að framleiða rafmagn.
Notuðu reyndar fallandi vatn líka og engum sögum fer af því, að það hafi skaðað eitt né neitt en veitti þess stað birtu og yl í lakleg húsakynni þeirra tíma.

Færðu inn athugasemd