Reynt að rísa upp… eða setjast

Þessi mynd er búin að vera til í fórum ritara síðan í um mánuð og það verður að játast að ekki er lengur munað úr hvaða miðli hún er, en myndin segir mikla sögu.

Konan sem gengur fram hjá borðinu, sem karlarnir sitja við, er formaður í flokki sem farið hefur með himinskautum í fylgi síðan hún tók við formennskunni.

Maður sem situr hnípinn og les eitthvað og er með rautt bindi og er þingmaður flokks sem skoðanakannanir benda til að muni hverfa af þingi í næstu kosningum.

Sá sem er til hægri með blátt bindi og einkennismerki flokksins síns í jakkanum sínum, er annað hvort að standa upp eða setjast en af svipnum má ráða að hvort heldur sem það er, þá sé það erfitt.

Við vitum hugsanlega ástæðu þessa, því á honum hvílir ábyrgð sem hann tók við þegar sú sem áður var í hans sporum stökk fyrir borð og af ríkisstjórnarskútunni til að verða forseti þjóðarinnar – sem ekki tókst.

Það tókst sem sagt ekki, þjóðin hafði úr nógu að velja og taldi sig ekki þurfa á henni að halda í embættið en frambjóðendur voru svo margir að ekki hafði sést annað eins áður í forsetakosningum.

Margir voru kallaðir en aðeins einn útvalinn og vitanlega fór það svo að einn var kosinn en hinir gengu af vellinum, vonandi ósárir en dálítið móðir.

Við vonum að svipur hins nýja forsætisráðherra sé ekki tilkominn af því, að hann sé að reyna að rísa upp en geti það ekki vegna þess að stóllinn haldi honum föstum!

En ef til vill eru það teiknarar miðlanna sem gripið hafa stöðuna best.

Ríkisstjórnarsamstarfið hangir á bláþræði, forsætisráðherrann tínir upp brúður til að geta leikið sér með og vinstrigrænir svipast um eftir fylginu sem þeir telja að hafi þrátt fyrir allt verið til í gær.

Færðu inn athugasemd