Hvalræði, kvalræði og stemming

Í Heimildinni sjáum við frásögn af afgreiðslu hvalveiðimálsins frá vinstrigrænum ráðherra og þar segir m.a. og er haft eftir Bjarna Benediktssyni:

„Ég hins vegar tek eftir því að ráðherrann segir rétt að veita leyfið núna til eins árs og færir fyrir því rök sem mér finnst alveg vera skiljanleg,“ sagði Bjarni og bætti við að stjórnvöld þurfi að öllum líkindum að skoða hvað hefði betur mátt fara í málinu [sem] hefur dregist á langinn...

…Það sem við þurfum kannski að spyrja okkur er hvort að stjórnsýslan í þessum málum sé nægilega skilvirk og veit[i] þann fyrirsjáanleika sem nauðsynlegur er fyrir þessa starfsemi.“

„Það var bara ágætis stemming með þessa niðurstöðu.“

Hvalveiðileyfi var veitt eftir japl, jaml og fuður og vel er hægt að skilja Kristján Loftsson þegar hann hæðist að vinnubrögðunum vinstrigræningjanna bestu vina Bjarna Benediktssonar.

Það er sem þessi flokksómynd geti farið sínu fram gagnvart samstarfsflokkunum án þess að það sé svo mikið sem æmt af þeirra hálfu.

Enginn flokkanna þriggja virðist vera í stjórn til þess að stjórna landinu, heldur er sem tilgangurinn sé sá einn, að hanga á völdunum í stað þess að játa sig sigraða, andlausa og uppgefna.

Það væri þjóðinni fyrir bestu að boðað yrði til kosninga svo fljótt sem unnt er og að mynduð yrði ný ríkisstjórn sem hefði sér eitthvert markmið og vonir fyrir hönd þjóðarinnar.

Stjórnin sem nú situr virðist eiga sér þá einu köllun að flengjast um heiminn og strá peningum í kringum sig, hvort heldur sem er í Úkraínu, Gaza eða annarstaðar.

Færðu inn athugasemd