Forsetinn, Tunglið og stríðið

Þessi tillti sér á stein og tvisvar verður sá feginn sem það gerir eins og við vitum. Hvort hann fylgdist með talningu atkvæða í forsetakosningunum á Íslandi, vitum við ekki.

Af þeim er það frá að segja, að kosningarnar fóru vel og ein þeirra kvenna sem dreymt hafði um bessastaðasetu sigraði með nokkrum yfirburðum.

Þrjár voru efstar og ein þeirra vann og vert er að óska sigurvegaranum til hamingju.

Fyrrverandi forsætisráðherra náði ekki kjöri enda vart við því að búast eins og viðskilnaðurinn var; flokkurinn skroppinn saman og á leið af þingi og búinn að leiða helsta andstæðinginn, sem var en ekki er, til valda en sá situr hinsvegar uppi með laskaðan flokk, sem hann virðist ætla að hressa við með því að að flandra um heiminn til að sýna sig og sjá aðra.

Tvær Höllur voru í framboði og það hallaði meira á aðra en hina og því var það Halla Tómasdóttir sem sigraði og rétt að óska henni til hamingju með sigurinn og velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Alveg óháð þessu lenti far frá frá Kína á sunnanverðu Tunglinu þar sem ekki sést til þess frá Jörðinni.

Ætlunin var að farið tæki jarðvegssýni til að koma með til Jarðar, nánar tiltekið til Innri Mongólíu.

Takist þetta er um mikið tækniafrek að ræða en að Tunglið sé sem einhverju nemur öðruvísi á ,,bakhliðinni“ en á þeirri hlið sem að Jörðinni snýr er afar ólíklegt.

Á Russya Today er sem vonlegt er fjallað talsvert um fyrirhugaðar beitingar vestrænna vopna sem send hafa verið og til stendur að senda til Úkraínu til árása á Rússland.

Í hópi hinna áhugasömustu eru lönd,  sem öll eiga sér sögu af tilraunum til innrása í Rússland.

Löndin sem lýst hafa yfir áhuga af því tagi eru samkvæmt því sem þar segir: Bretland, Frakkland, Pólland, Lettland, Litháen og Þýskaland.

Auk þess sem íslensk stjórnmálaskoffín dreymir um að senda einhverjar kindabyssur til vina sinna í Úkraínu og ætla að sækja peninga fyrir byssunum í vasa skattgreiðenda.

Öll hafa löndin, nema náttúrulega Ísland, í fortíðinni ásælst Rússland og ráðist á það með mismunandi hætti.

Hvernig þeim mun takast til núna, á eftir að koma í ljós en hvar og hvernig landamerki þessa víðlenda ríkis eiga að vera er endalaust hægt að deila um, hafi menn ekki annað við tímann að gera.

Ásælni og öfund virðist vera innbyggð í okkur og því er sem er, að þeir sem eiga, þurfa stöðugt að vera á verði fyrir þeim sem ekki eiga.

Að menn ríði feitum hesti frá því, að egna rússneska björninn þar sem hann liggur í hýði sínu er ekki líklegt.

Rússar eru sem sagt öllu vanir og vel getur verið að fleiri lönd sem ekki koma hér fram séu með gamlar gælur einnig en varast skyldi þann sem er við öllu búinn og býr yfir miklu afli til að svara fyrir sig.

Fari allt á versta veg er ólíklegt að ferðir til Tunglsins verði framtíðarverkefni mannkynsins á næstunni.

Færðu inn athugasemd