
Við kusum okkur forseta, kusum ,,taktískt”, segja sérfræðingarnir og fengum konu í embættið.

Lesum um það á mbl.is að Bjarni hafi óskað nýkjörnum forseta til hamingju.
Kannski finnst sumum það ekki vera frétt, svo sjálfsagt sem það er og í sama miðli lesum við líka að Selenskí hinn úkraínski, hafi líka óskað Höllu til hamingju.
Hvað sem öllum hamingjuóskum líður, gleðjumst yfir því að hafa fengið frambærilega og góða manneskju í stöðuna á Bessastöðum og óskum Höllu Tómasdóttur alls velfarnaðar í embættisstörfum sínum.
Konurnar þrjár sem tókust á um stöðuna voru allar vel frambærilegar og hver þeirra sem hana hefði hlotið, hefði trúlega á endanum haft þjóðina að baki sér.
Það er samt ekki alveg víst varðandi þá sem kosið var ,,taktískt“ gegn, því hún hefur tekið ýmsar umdeildar ákvarðanir og að því sem sumum finnst, verið í vafasömum pólitískum félagsskap.
Það sannaðist sem sagt í þessum kosningum, að það er ekki alltaf gott veganesti að hafa verið í pólitík, gekk einu sinni en gekk ekki aftur og ekki bætir úr skák ef viðkomandi hefur tekið umdeilanlegar ákvarðanir á ferli sínum og verið í vafasömum pólitískum félagsskap og svikið sína ,,huldumey”.

Það er víðar en á litla landinu okkar sem kosnir eru forsetar og við sjáum í fréttum að Mexíkanar voru að kjósa sér forseta og niðurstaða varð kona.
Heimur batnandi fer og við erum öll í heiminn borin af konum og þó karlarnir hafi fram til þessa verið að mestu allsráðandi, þá er það ekki vegna meiri andlegra hæfileika, heldur vegna einhvers annars sem ekki verður farið út í hér.
Óskum nýkjörnum forsetum alls hins besta, munum eftir Vigdísi, Indiru, Margréti, Angelu o.fl. og fl. og vitum því að við getum búist við góðu.

Færðu inn athugasemd