
Hugsuðurinn
Ríkið á banka og ríkið á sjóð og vegna þess að í þessum gersemum gæti leynst smá aur þarf að selja þær.
Í Heimildinni er sagt frá þeim hugleiðingum og svo er að skilja sem aura vanti.
Þannig er að Íbúðalánasjóður er með framsóknarbragði, sem veldur því að fáir vilja kaupa og það ekki þótt gersemin fengist fyrir slikk.
Bankinn sem ríkið hefur haft til sölu fyrir vel valda vildarvini er sömuleiðis með óbragði vegna fyrri sölutilburða og því ekki gott að sjá hvernig hægt verður að finna kaupendur að honum og ef þeir finnast, hvað vilja þeir þá greiða fyrir laskaða stofnun?

Síðast þegar ráðist var í það stórræði að losa fé sem bundið var í bankanum, voru það eins og sem svo oft áður, vel valdir vildarvinir sem fengu að kaupa og það það endaði þannig að ráðherra sagði af sér og það var fjármálaráðherrann.
Nú er hann orðinn forsætisráðherra í stað þeirrar sem það var, því hana langar núna að verða forseti.
Reyna á að að selja bankann aftur og enginn veit hvernig það gengur en liklegt má telja, að eftirsóknin verði ekki mikil, því hver vill eiga banka sem þegar er kominn í hendurnar á vildarvinum – að hluta, og hvernig verður staðið að rekstrinum þegar svo er komið?
Það verður hlutast til og togast á, ef að líkum lætur og þreytan sækir að, svo sem sjá má og skildi engan undra.

Myndin sýnir mann sem sopið hefur marga fjöru í íslenskri pólitík og myndin er sjálfsagt valin vegna þess að það er hann sem situr uppi með kaleikinn eftir síðustu sviptingar í pólitíkinni, þær sem við munum síðan þurfa að afgreiða í komandi forsetakosningum.
Sagt er að ákveðin dýrategund forði sér frá sökkvandi skipi en engum sögum mun fara af því, að sú dýrategund sækist eftir auknum frama, eftir að hafa forðað sér.
Kaleikinn fyrrnefnda bjó víst flokkur hins syfjaða og þreytta til á sínum tíma, eflaust í þeirri trú að framsóknarhagfræðin væri bæði traust og skotheld.
Svona ámóta traust og landbúnaðarstefnan, sem flokkurinn hefur heiðurinn af, að hafa smíðað, steypt, slegið utan af og naglhreinsað um margra áratuga skeið.
Það hefur því komið í hlut annarra afla, að brjóta upp þá gersemi og ætli ekki verði einnig svo með bankann verðfallandi og sjóðinn ónýta, að það komi á endanum í hlut nýrra og ferskra afla að leysa vandann?
Færslan hefur verið uppfærð.

Færðu inn athugasemd