Um aðsenda grein í Bændablaðinu

Aðsend grein birtist í Bændablaðinu þann 16/5/2024 eftir forstjóra Samkeppnisstofnunar.

Greinin er um breytinguna sem gerð var, ,,á búvörulögum sem heimila[r] kjötafurðastöðvum að hafa með sér samráð sem ólögmætt er í öðrum atvinnugreinum“.

Ritari þessa pistils man vart eftir að hafa séð annan eins áfellisdóm eftirlitsstofnunar yfir vinnubrögðum Alþingis og vaktstöðu þeirra sem hagsmuna eiga að gæta, sem í þessu tilfelli eru t.d. forsvarsmennn bænda, alþingismenn og talsmenn neytenda.

Greinina sem er nokkuð löng, er best að lesa á t.d. vef Bændablaðsins og það er hægt að gera með því að nota tengilinn sem er hér í upphafi þessa pistils.

Nýlega var kosin ný stjórn Bændasamtakanna og er þar skemmst frá að segja, að í stað þess að samtökin séu samstarfsvettvangur allra bænda, þá eru þau nú hrokkin í sitt fyrra far og orðin fyrst og fremst samtök sauðfjárbænda en til þess ætlast, að fulltrúar hinna búgreinanna fylgi með, í von um að hagsmunir þeirra séu ekki með öllu gleymdir.

Í ljósi þessa er rétt að skoða hvernig nýr formaður afgreiðir lögin sem hér eru til umræðu.

,,Í viðtali við Heimildina þann 20. apríl sl. er eftirfarandi haft eftir honum um málið, þ.e.a.s. heimildirnar til sameiningar afurðastöðva:

„Ég hef bara ofboðslega mikla trú á því að það verði vel farið með þetta okkur til hagsbóta. […] Já, þetta er mikið traust sem við leggjum á þessi fyrirtæki.“

Þessi orð ber líkast til að skilja sem svo, að formaðurinn treysti fyrirtækjunum til að misnota ekki aðstöðu sína og hann hefur: ,,bara ofboðslega mikla trú á því að það verði vel farið með þetta [lagaheimildina] okkur til hagsbóta“!

Lögin sem um er rætt eru orðin að veruleika, svo það er eins gott að trú mannsins standi á traustum grunni!

Hundurinn á myndinni er aðþrengdur og augnaráðið sem hann sendir ljósmyndaranum bendir til þess að hann geti verið að hugsa sem svo:

Nú á ég við ofurefli að etja, nema að ég sýni tennurnar, láti í mér heyra og á það reyna, hvernig brugðist verður við. Því í þessari stöðu gengur ekki að leggjast á bakið í von um að fá, þó ekki væri nema frið!

Færðu inn athugasemd