,,Ég sit og gægist oft út um gluggnn“… , og metið út frá staðreyndum

Það var skemmtileg sjón, að sjá tvenn pör af þessum fuglum gera þetta í morgun, þegar staðið var við eldhúsgluggann og horft út í garðinn.

Það fór svo sannarlega vel á með þeim og þó ekki sé gott að ætla á um, hvað þau voru að hugsa, þá leyfi ég mér að halda því fram, að það hafi verið eitthvað á þesa leið:

Þú ætlar að verpa eggjunum og því veitir þér ekki af að nærast vel, ég skal færa þér björg í bú, á meðan þú liggur á og líka þegar ungarnir eru komnir í heiminn.

Í mannheimum er ýmislegt í gangi og er það helst að telja hér á ísa köldu landi, sem þó er vel heitt að innan, að hópurinn sem boðið hefur sig fram til forseta kemur fram í Sjónvarpi allra landsmanna og víðar til að láta ljós sitt skína.

Það gerðist t.d. í gær þar sem burtfloginn formaður VG, sat fyrir svörum og gerði sitt besta til að heilla þau sem á horfðu og heyrðu.

Hvað við getum lesið út úr svip konunnar sem nýlega er ,flogin úr íhaldsfaðmi’ eins og gera má ráð fyrir að félagar hennar kalli það, nema þeir hafi skipt um gír líka, svona eins og til að sanna sig fyrir þeim sem heldur þeim í faðmi sér.

Ekki varð sá sem þetta ritar þess var að fram kæmi, að frambjóðandinn væri genginn úr flokki sínum en vel getur svo verið, þó ekki væri nema vegna þess, að nokkuð langt er síðan flokkurinn gekk úr sjálfum sér ef svo má segja og eigrar hann nú um á ókunnum pólitískum ökrum.

Fátt nýtt kom fram annað en það sem heyrst hefur áður, að konan telur sig kunna flest og geta, sem skiptir máli til að geta sinnt embættinu. Við vitum að ,,íhaldið“ sem þau kölluðu eitt sinn, er núna væntanlega í huga þeirra bæði frjáslynt, víðsýnt og opið fyrir öllum góðum hugmyndum. Svo sem reyndar má sjá af framsetningu kynninga í Morgunblaðinu, sem virðist styðja framboð leiðtogans, þess sem var.

Annars er það helst að frétta, að einn af frambjóðendunum er kominn upp á kant við skopmyndateiknara sem teiknað hefur myndir fyrir visir.is. Þó foretaefnið sé ókátt, ber teiknarinn sig vel og við vonum að hann haldi uppteknum hætti og dragi upp skoplegu hliðarnar á íslensku þjóðlífi, því myndir hans segja meira en mörg orð.

Hvalavinir eru hressir og svo er að skilja, sem framtíð hvalveiða felist í haustveiðum og kannski vetrar, ef ráða má í það sem hér að ofan segir.

Landið okkar er ,,heitt að innan“ eins og fyrr var sagt og nálægt því að bresta samkvæmt því sem hér er haft eftir prófessor í jarðeðlisfræði og þar sem við erum dálítið hrifin af eðlisfræði yfirleitt, þá minnum við á, að einn er sá frambjóðandi í kosningunum – sem áður var minnst á – sem er jarðbundinn og yfirvegaður og metur hlutina út frá staðreyndum.

Höldum okkur því við jörðina, veljum af yfirvegun, metum út frá staðreyndum og ef einhver annar verður fyrir valinu, þá er það alla vega ekki okkur að kenna!

Færðu inn athugasemd