Forsetaframboð, kjarabarátta, öfgamálflutningur og þakklætið.

Við byrjum á notalegu nótunum og skoðum myndir, sem birtust á ,,vefnum“ á dögunum. Til vinstri er karrinn, sem skartar sínu fegursta, á meðan kella hans lætur lítið á sér bera og fellur inn í umhverfið.

Förum síðan yfir lista frambjóðanda til forseta, sem setur áherslur sínar fram í sjö punktum, er stuttorð og skrumlaus í málflutningi, hefur þekkingu á orkumálum þjóðarinnar m.m. og við munum, að þar er um að ræða eina stærstu auðlind okkar ásamt fiskveiðiauðlindinni, að ógleymdum mannauðnum sem aldrei skyldi vanmeta.

Rekumst á viðtal á Vísi við formann VM, sem segir farir ekki sléttar af viðræðum við atvinnurekendur: ,,Félagsmenn VM og Rafiðnaðarsambands Íslands hafa nú verið samningslausir í fjóra mánuði og segir Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM, að þolinmæðin sé á þrotum. Komi til aðgerða af þeirra hálfu gæti það haft rafmagnsskort í för með sér.

Það vill geymast, að vélfræðingar og málmtæknimenn eru talsvert áríðandi stéttir í nútímasamfélagi. Sumar þjóðir muna það en aðrar ekki og við Íslendingar virðumst ekki vera í hópi þeirra, sem kunna að meta gott handbragð og tæknikunnáttu. Viðhorfið lýsir sér skýrt í áformum um að úthýsa námi þessara stétta frá Reykjavík og úr Sjómannaskólanum.

Aðrar þjóðir kunna vel að meta þessar starfsgreinar og eru þar líklega á villigötum að mati þeirra sem telja Sjómannaskólann, betur kominn í höndum dómstóla landsins.

Einn prúðasti og málefnalegasti þingmaður þjóðarinnar Oddný Harðardóttir, skrifar pistil í Vísi í tilefni af málflutningi formanns Flokks fólksins, sem svo kallar sig og hafi ekki áður verið sett ofan í gaspurskjóðurnar þar á bæ, þá var sannarlega kominn tími til.

Við sjáum í lok þessarar samantektar, hvernig Morgunblaðið í dag (21/5/2024) afgreiðir slaginn um embættið á Bessastöðum.

Forsíðan er lögð undir framboð forsætisráðherrans sem vék úr ríkisstjórn, til að rýma fyrir formanni Sjálfstæðisflokksins. Æ sé gjöf til gjalda, er sagt og það verður að segjast, að vel er launuð uppstokkunin sem orðin er í ríkisstjórninni, af eina dagblaði landsins.

Á innsíðu er því slegið upp að ráðherrann sem var, ,,mun[i] aðeins sýna þjóðinni hollustu“ og fyrir einhverja gráglettni hefur slæðst inn auglýsing um skíðaferðir en við gerum samt ekki ráð fyrir að ætlunin sé að bjóða þjóðinni á skíði í stað stuðnings við framboðið!

Flokkurinn sem leiddi stjórnina þar til nýlega er í þeirri stöðu, að ef kosið væri núna til þings, er líklegast að flokkur frambjóðandans sem hér er hampað, myndi lenda utan þings og sleikja sín sár þar, næsta kjörtímabil hið minnsta.

Því má gera ráð fyrir, að það sem eftir er af Vg- liðum muni fylkja sér um formanninn burtflogna, ásamt þeim stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem muna eftir að þakka fyrir sig, svo fremi að áminningar Morgunblaðsins skili sínu!

Færðu inn athugasemd