Xi hinn kínverski fór til Bandaríkjanna fyrir skömmu og var vel tekið. Brá hann sér þar m.a. upp í dráttarvél og virtist finnast það gaman.
Á cnn.com sjáum við hins vegar frásögn af heimsókn Putins til Kína og er skemmst frá því að segja að allt virðist það hafa gengið eftir vonum og vel fór á með stjórnendum risaríkjanna tveggja.

Xi tók vel á móti Putin svo sem við átti þar sem samskipti ríkjanna hafa aukist í réttu hlutfalli við það sem þau hafa farið minnkandi milli Rússlands og svokallaðra vesturlanda, þ.e. þeirra sem nú herja á Rússland með Úkraínu sem verktaka, að sögn Rússa.
Þar mun ekki þykja fínt að hitta Putin en Xi tekur ekki við fyrirmælum frá þeim ólíkt, íslensku ríkisstjórninni svo dæmi sé tekið. Hann fer sínu fram hvort heldur sem það varðar flug veðurbelgja eða eitthvað annað.
Þótt honum hafi sjálfsagt fundist gaman að aka amerískum traktor, þá var það ekki svo yfirmáta skemmtilegt, að hann vilji allt til vinna að fá að gera það aftur, fyrir nú utan það að Kínverjar eiga nóg af svoleiðis tólum til að leika sér að, ef þeir kjósa svo.
Putin kemur víða við og frásögn hins bandaríska fréttamiðils lýkur á því, að sagt er frá því að maðurinn hafi litið við í tækniháskóla. Skóla sem hlotnast hafði sá heiður að hafa verið refsað af Bandaríkjastjórn vegna gruns um, að skólinn hafi útvegað kínverska hernum eitthvert dót.
Það er í mörg horn að líta hjá Biden eins og við vitum og hart til þess að vita, að land sannleika og góðra siða, fái ekki að fara sínum fram svo sem það telur sig þurfa, til að heimurinn haldist stöðugur í hinum öruggu, traustu og vönduðu höndum þeirra og fylgiríkjanna sem þeim fylgja að málum!
Í öðru eyríki og ekki síður fylgispöku eru menn uppteknir við að finna sér forseta til setu á Bessastöðum og er framboðið á forsetaefnunum meira en eftirspurnin.
Því er haldið fram af sumum, að forsætirráðherrann sem var í forystu fyrir ríkisstjórninni, hafi stigið niður og farið í forsetaframboð á þeim forsendum að stóri flokkurinn sem forsætið fékk, myndi í staðinn styðja þann niðurstigna í kosningunum.
Hvort það er rétt vitum við ekki en sumir telja sig finna þess merki í fréttaflutningi Morgunblaðsins af framboðsmálum og kynningu á framboðum.
Góð saga á ekki að gjalda sannleikans, er stundum sagt og verið getur að þess gæti í þeim ágiskunum.

Færðu inn athugasemd