Dýralífsmyndin sýnir þrá eftir friði.

Á myndunum hér að neðan, er annað upp á teningnum, því þar er sem þráin sé eftir ófriði.

Þar er stríðstól gert klárt til illvirkja og til hægri sjáum við mögulegar afleiðingar af beitingu þess. (Þær myndir eru fengnar af CNN.COM)

Stríð er enn í Úkraínu og engu breytir, þó íslenskur ráðherra hafi beitt viti sínu svo sem hann gat og rekið heim rússneska sendiherrann.

Fréttaveitan CNN.COM er með frásögn af stöðunni í styrjöldinni á Donbas svæðinu og samkvæmt því sem þar segir, blæs ekki byrlega hjá úkraínska hernum. 

Rússum er að takast að teygja á og lengja víglínuna og um er að kenna, að Bandaríkin standa sig ekki varðandi vopnasendingar, að sögn Zelensky. 

Hvað sem hver segir og hvenær, þá er þessi styrjöld sem aðrar, ömurlegur vitnisburður um það sem getur gerst þegar menn virða ekki hvorn annan og sem þá fyrst verður verulega alvarlegt þegar um er að ræða samskipti milli þjóða. 

Líklega er vonlaust að reikna með því að reynt verði að bera klæði á vopnin, ganga á milli og koma mönnum að samningaborðinu. 

Þessi átök eru búin að eiga sér langan aðdraganda og það verður að segjast, að Rússar hefðu getað brugðist fyrr við því sem var að gerast. 

Þeir sköffuðu varnarsveitum Donbas þó vopn en það dugði skammt, þar sem raunverulegur her var ekki til staðar til að taka við því sem að var rétt og afleiðingar þess sáum við t.d. þegar hollenska farþegaþotan var skotin niður. 

Það má vel gagnrýna að slíku flugi sé ekki beint fram frá átakasvæðum en hvað sem um það má segja, þá liggja afleiðingarnar ljósar fyrir og allir sem í flugvélinni voru fórust. 

Það er sorgaratburður sem ekki hefði þurft að gerast ef menn hefðu haft þjálfun í meðferð búnaðarins, að ógleymdu ábyrgðarleysi þeirra sem ákváðu flugleið vélarinnar. 

Allt er þetta löngu liðið og verður aldrei tekið til baka en er aðeins dæmi um það sem getur gerst, þegar menn ná því ekki að ræða sig til niðurstöðu deilumála og fara þess í stað, þá leið að herja hver á annan. 

Við þetta bætast sögur um að alls kyns stjórn- og eftirlitsleysi hafi verið ríkjandi í Úkraínu einkum á svæðum sem voru nærri Donbas. 

Þar var verið að sýsla með ýmislegt sem ekki þoldi dagsljósið og jafnvel forsetasonur vestan Atlantsála mun þar hafa komið við sögu ásamt fleirum.  

Þá sögu þekkjum við ekki til hlítar en hafi svo verið að Hunter hinn Bidenski hafi verið þar eitthvað að bralla, þá væri gott að fá það vel og skilmerkilega upplýst. 

Fólkið sem bjó í Donbas átti ekki sjö dagana sæla og bjó við sífelldar árásir frá Úkraínu, sem það gat ekki varist nema að litlu leyti, með fyrrnefndum vopnasendingum frá Rússlandi. 

Illur á sér ills von, segir íslenskt máltæki og það er að sannast í því sem er að gerast austur þar og það sem verra er, að ekki er að sjá annað en vestræn ríki hafi það að markmiði að teygja svo sem unnt er lopann, væntanlega í þeim tilgangi að geta prufað sem mest af hertólum sínum. 

Íslenska máltækið okkar nær vitanlega ekki yfir svona atburði, því illskan bitnar ekki síst á þeim sem saklaus eru.

Og ekki spillir fyrir hve sendingar hergagna til Úkraínu auka hagvöxtinn, hjá þeim sem lifa á því að framleiða drápstól! 

Vasar bandarískra yfirvalda virðast vera djúpir þegar að því kemur að styrkja og efla vopnaframleiðendur en hlaupa dálítið saman, þegar kemur að því að bæta samfélagið og styrkja. 

Það sorglega er, að ,,lítil von er til að Eyjólfur hressist”, sé tekið mið af því sem er að gerast í aðdraganda forsetakosninganna vestur þar.

Þar sem tveir útbrunnir karlar berjast um embættið og er það ólíkt því sem er að gerast á litla Íslandi, þar sem offramboð er á frambjóðendum. 

Færðu inn athugasemd