Það er hart í ári hjá þessum sumargestum okkar en við vonum allra vegna, að það fari að hlýna í veðri.

Það hefur verið kalt á þessu vori fram til þessa og þess sér m.a. merki á fuglalífinu. Farfuglar halda sig við mannabústaði í von um að finna eitthvað ætilegt og sumir víkja einhverju að þeim. Álftirnar hafa snúið sér að túnunum og kroppa þar grængresi þó lágvaxið sé, en þær hafa líka leitað í grunn vötn í von um næringu og stundum fundið en nú er sem allt sé uppétið a.m.k. sumstaðar.

Stóllinn eftirsótti
Vorið býður upp á fleira því mikil eftirsókn er í stól nokkun, sem virðing þykir að sitja í en hvort það er eins gott að sitja í honum og þeim sem hér sést veit ritari ekki.
Hann á samt einn svona stól og hefur átt um áratuga skeið og sætið þykir gott. Fái sú sem sést á myndinni ekki sætið sem hún sækist eftir, þá er hún velkomin í heimsókn og heimilt er henni að máta stólinn!
Ekki er annað vitað en að hann sé íslensk hönnun af besta tagi; íslensk smíð sem hefur dugað í áratugi.
Megi hún njóti góðs gengis varðandi sæti það sem hún sækist eftir og hvernig sem fer með það, þá stendur stóllinn minn á sínum stað!

Það eru ekki allir velkomnir til okkar og þó fæðingartíðni íslenskra kvenna sé komin undir þau mörk sem þarf til að halda stofninum við og hvað þá til fjölgunar, þá er fólk flutt í flugvélaförmum á brott hafi það komist til landsins.
Hvort menn treysta á að ævilengd hinna hreinræktuðu aukist sem nemur fækkuninni, eða hvort veðjað er á, að þegar þjóðinni fækkar muni áhugi á barneignum vaxa, er ekki vitað.
Undirliggjandi er, að sumir eru velkomnari en aðrir en það er mál sem ekki má minnast á, án þess að eiga á hættu að yfir komi gusur og því verður ekki komið inn á það frekar að þessu sinni.
Vonum bara að Eyjólfarnir, Gunnurnar og Stínurnar hressist svo gamla góða fyrirmyndarþjóðin deyji ekki endanlega út!

Það er afturför á fleiri sviðum, sem reyndar væri réttara að kalla framför í þessu tilfelli, því ekki er hægt að rafvæða allt hvað heita hefur, ef hvergi má virkja vegna svokallaðra ,,umhverfisvina“. Þeir virðast stefna á, að verða óvinir en ekki vinir þjóðar sinnar, þ.e.a.s. ef þeir halda uppi sama háttalagi til framtíðar.
Því það getur víst ekkert orðið af engu, þó hægt sé að gera flest að engu.

Við sjáum hvernig farið getur, ef hugurinn leitar annað en þangað sem hann á að gera og þannig mun fara fyrir okkur ef við leyfum ekki börnum að fæðast og fólki að setjast að, til að leggja fram krafta sína, þjóð okkar til eflingar.
Ef ekki væri fyrir orkuna í fallvötnunum, hitann í iðrum jarðar, fiskinn í sjónum og kraftinn í þjóðinni, þá værum við ekki þjóð meðal þjóða.

Færðu inn athugasemd